Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur veitt Eldisstöðinni Ísþór ehf., Þorlákshöfn,starfsleyfi fyrir rekstur fiskeldisstöðvar að Nesbraut 25. Leyfið veitir heimild til að framleiða allt að 600 tonn samanlagt af laxa- og regnbogasilungsseiðum. Leyfið gildir til seiðaeldis en nær ekki til framleiðslu matfisks né slátrunar. Tillaga að starfsleyfi fyrir fiskeldið var auglýst á tímabilinu 20. janúar til 18. mars 2015. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Sveitarfélaginu Ölfuss, Skipulagsstofnun, Fiskistofu, Heilbrigðisnefnd Suðurlands, Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu, Orkustofnunar, Náttúru fiskirækt ehf. og Brunavarna Árnessýslu 

Umhverfisstofnun bárust tvær athugasemdir við auglýsingu tillögu starfsleyfisins, annars vegar frá Heilbrigðisnefnd Suðurlands og hins vegar frá Orkustofnun. Heilbrigðisnefnd Suðurlands gerði eina athugasemd varðandi orðalag greinar 2.4 í starfsleyfinu, en ekki kom nægilega skýrt fram hvaða kröfur eru gerðar varðandi fráveituna. Var fyrstu setningu gr. 2.4 því verið breytt frá auglýstri tillögu, þannig að vísað er í 7. mgr. 9. gr. reglugerðar 798/1999. Orkustofnun gerir athugasemd um að ekki hafi verið til staðar nýtingaleyfi á vatni skv. 6. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlingum. Rekstraraðila var leiðbeint um að sækja um nýtingaleyfi til Orkustofnunar og var það gefið út þann 26. maí sl. 

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið tók gildi 3. júní sl. og gildir til 3. júní 2019.

Tengd gögn