Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir Thorsil ehf. til að að framleiða í fjórum ljósbogaofnum allt að 110.000 tonnum á ári af hrákísli (>98% Si) og allt að 55.000 tonnum af kísildufi og 9.000 tonnum af kísilgjalli. Reksturinn á að fara fram í Helguvík, nánar tiltekið á lóðinni Berghólabraut 8 í Reykjanesbæ. Starfsleyfistillagan er auglýst með þeim fyrirvara að deiliskipulag það sem nú hefur verið auglýst af Reykjanesbæ, verði samþykkt. 

Framkvæmdin fór í mat á umhverfisáhrifum og álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 1. apríl 2015. Skilyrðin í starfsleyfistillögunni miðast m.a. við matsskýrslu og umfjöllun Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, starfsleyfisskilyrði sambærilegra fyrirtækja sem hafa starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun, sem og viðmið um bestu fáanlegu tækni. 

Starfsleyfistillagan er auglýst á tímabilinu 28. maí til 23. júlí 2015. Hér að neðan má finna auglýsta tillögu Umhverfisstofnunar, drög að vöktunaráætlun og umsóknargögnin. Einnig er að finna matsskýrslu fyrirtækisins sem skilað var til Skipulagsstofnunar og álit hennar. Að auki er að finna gögn um dreifingu loftmengunar en Umhverfisstofnun fór fram á það við Thorsil ehf að fyrirtækið skilaði inn aukagögnum sem sýna frekari dreifingu loftmengunar í Reykjanesbæ. 

Umhverfisstofnun hyggst halda opinn kynningarfund um tillöguna. Fundurinn verður auglýstur síðar. 

 Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 23. júlí 2015.

Tengd gögn