Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Húnaþing vestra hefur nú lokað urðunarstað sínum að Syðri–Kárastöðum og þannig bæst í hóp fjölmargra sveitarfélaga sem hafa stigið það skref. Frá árinu 2012 hefur 14 urðunarstöðum verið lokað, sem þýðir að urðunarstöðum á Íslandi hefur fækkað um tæp 40% á fjögurra ára tímabili. Aukin endurvinnsla úrgangs og samdráttur í urðun eru lykilþættir í þessari þróun en kröfur um mengunarvarnir, sem urðunarstaðir þurfa að uppfylla, hafa einnig áhrif. 

Við lokun urðunarstaðar ber rekstraraðili ábyrgð á hreinsun og frágangi staðarins og hann ber ábyrgð á eftirliti og vöktun í allt að 30 ár eftir lokun. Þegar urðunarstað er lokað gefur Umhverfisstofnun út svokölluð fyrirmæli um frágang og vöktun þar sem mælt er fyrir um hvernig rekstraraðilanum beri að standa að hreinsun, frágangi, eftirliti og vöktun. Þessum fyrirmælum er þinglýst á viðkomandi jörð.