Stök frétt

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur úthlutað styrkjum úr Veiðikortasjóði fyrir árið 2015. Í kjölfar auglýsingar um umsóknir um styrki úr Veiðikortasjóði til rannsókna á stofnum villtra fugla og villtra spendýra bárust umhverfis- og auðlindaráðuneytinu 14 umsóknir að fjárhæð 51,6 milljónir króna. Til úthlutunar voru tæplega 26 milljónir króna. 

Ráðuneytið sendi umsóknir um styrki til umsagnar Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Umhverfisstofnun fékk álit ráðgjafarnefndar um úthlutanir í samræmi við úthlutunarreglur fyrir Veiðikortasjóð. 

Ráðuneytið hefur að fenginni umsögn Umhverfisstofnunar og áliti ráðgjafarnefndarinnar um umsóknirnar ákveðið að veita eftirfarandi aðilum styrki úr Veiðikortasjóði: 

  • Náttúrufræðistofnun Íslands, krónur 9.000.000 vegna verkefnisins: Vöktun rjúpnastofnsins 2015. 
  • Náttúrufræðistofnun Íslands, krónur 750.000 vegna verkefnisins: Sníkjudýrasýkingar, líkamsástand og stofnbreytingar rjúpu á Íslandi. 
  • Náttúrustofa Norðausturlands, krónur 3.930.000 vegna verkefnisins: Farhættir og vetrarstöðvar íslenskra svartfugla. 
  • Háskóli Íslands, krónur 3.000.000 vegna verkefnisins: Heilbrigði veiðitegunda. 
  • Náttúrustofa Suðurlands, krónur 4.400.000 vegna verkefnisins: Lunda- og bjargfuglarannsóknir 2015. 
  • Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Snæfellsnesi, krónur 820.000 vegna verkefnisins: Stofnvistfræði og stofnstærð dílaskarfs á Íslandi. 
  • VERKÍS, krónur 2.371.000 vegna verkefnisins: Vöktun á ungahlutfalli í veiðistofnum gæsa og anda, með aldursgreiningu vængja úr veiði og vöktun á ungahlutfalli í friðuðum stofni blesgæsa. 
  • Vör, sjávarrannsóknarsetur við Breiðafjörð, krónur 1.000.000 vegna verkefnisins: Rannsókn á hlutfalli ýsu-, þorsk, og makrílmaga sem innihalda síli í Breiðafirði árið 2015. 
  • Ævar Petersen, krónur 700.000 vegna verkefnisins: Íslensk fuglabjörg og hlunnindi þeirra.