Stök frétt

Um allan heim verður í dag haldið upp á alþjóðlegan dag hávaðavitundar, International Noise Awareness Day, í tuttugasta sinn. Bandarísk heyrnar- og talmeinamiðstöð reið á vaðið árið 1996 til að hvetja fólk til að gera eitthvað vegna truflandi hávaða á heimili þess, í vinnunni eða í frístundum. Truflandi hávaði getur valdið streitu og til langs tíma jafnvel valdið heyrnarskerðingu og heyrnartapi. 

Á vefsíðu Umhverfisstofnunar má finna ýmsar upplýsingar um hávaða. Stofnunin hefur m.a. gefið út leiðbeiningar um hljóðvistarkröfur í umhverfi barna en í leiðbeiningunum er lögð áhersla á mörk fyrir hávaða, eftirlit með hljóðvist og góð ráð gegn hávaða í umhverfi barna. Leiðbeiningunum er ætlað að nýtast jafnt foreldrum sem stjórnvöldum og eftirlitsaðilum. Á vefsíðunni má einnig nálgast niðurstöður hávaðakortlagningar á stórum vegum og þéttbýlissvæðum sem unnin hafa verið á Íslandi sl. ár, sem og aðgerðaáætlanir.

Umhverfisstofnun Evrópu, European Environment Agency, hvetur almenning til að deila reynslu sinni af hávaða í Evrópu, hvort sem um góða eða slæma upplifun er að ræða, á vefsíðunni NoiseWatch. Vefsíðan hefur m.a. verið nýtt af Evrópubúum við val á íbúðarhverfi og sumarleyfisstöðum. Margir nýta sér einnig hin ýmsu smáforrit sem sækja má í síma til að mæla hávaða í umhverfinu og fá þannig hugmynd af ástandinu, svokallaða desibel-mæla (dB).