Stök frétt

Á ársfundi Umhverfisstofnunar tók stofnunin á móti viðurkenningu frá Umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir að hafa uppfyllt öll fimm Grænu skrefin á starfsstöð sinni að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík. Umhverfisstofnun er fyrst allra ríkisstofnana til að ná öllum fimm skrefunum, auk þess fær starfsstöðin á Patreksfirði viðurkenningu fyrir að stíga fjögur græn skref og starfsstöðvarnar á Mývatni og Akureyri hvor um sig viðurkenningu fyrir að uppfylla þrjú Græn skref. Þetta verkefni er sérlega áhugavert fyrir forstöðumenn ríkisstofnana og þá ekki eingöngu til að minnka umhverfisáhrif stofnunar heldur einnig til að lækka rekstrarkostnað. Aðgerðirnar sem unnið er að snúa margar hverjar að t.d. því að minnka orkunotkun, lækka sorphirðukostnað með því að flokka ruslið, kaupa minna af aðföngum og nýta betur það sem til er. Síðan 2011 hefur Umhverfisstofnun lækkað kostnað vegna upphitunar á húsnæði sínu við Suðurlandsbraut 24, um 39% og um 16% vegna rafmagnsnotkunar. 

Græn skref í er nýtt verkefni í umsjón Umhverfisstofnunar þar sem áherslan er lögð á að minnka umhverfisáhrif ríkisstofnana. Þetta er hvatakerfi byggt á vel heppnuðum Grænum skrefum Reykjavíkurborgar sem er einföld og aðgengileg leið fyrir opinbera aðila að vinna markvisst að umhverfismálum. Verkefnið tók sín fyrstu formlegu skref í nóvember árið 2014 og nú í upphafi árs 2015 hafa 20 ríkisstofnanir skráð sig. 

Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Grænna skrefa og á Facebook-síðu verkefnisins