Stök frétt

Umhverfisstofnun í samstarfi við Landgræðslu Ríkisins, Skútustaðahrepp og Náttúrustofu Norðausturlands hefur undanfarið unnið verndar- og stjórnunaráætlun fyrir náttúruvættið Dimmuborgir. Tillaga verndar- og stjórnunaráætlunar er hér með lögð fram til kynningar. 

Dimmuborgir voru friðlýstar sem náttúruvætti árið 2011 til að varðveita einstakar jarðminjar sem þar er að finna. Talið er að jarðeldar hafi fyrir um 2300 árum skapað landslag svæðisins sem einkennist af hellisskútum, hraundröngum og klettum. Í hraunlandslaginu þrífst fjölbreytt gróður- og dýralíf. Víða má sjá glögg merki þeirra afla sem sköpuðu Dimmuborgir sem eykur á fræðslugildi svæðisins. Vernduninni er ætlað að tryggja varðveislu jarðminja vegna hins mikla fræðslu- og útivistargildis. 

Áætlað er að gestir Dimmuborga séu á bilinu 100-150 þúsund á ári og því er mikilvægt að stjórnun svæðisins sé markviss svo verndargildi varðveitist. Markmiðið með gerð verndar- og stjórnunaráætlana fyrir svæðið er að leggja fram stefnu um verndun og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins. Frestur til að skila inn athugasemdum er til föstudagsins 24. apríl 2015. Hægt er að skila inn athugasemdum eða senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. 

Allar nánari upplýsingar veitir Davíð Örvar Hansson eða í síma 591-2000

Gögn til kynningar