Stök frétt

Fyrir 25 árum tók Ísland þátt í að stofna eitt af merkustu umhverfismerkjum heims. Norræna umhverfismerkið Svanurinn og Svansvottuð fyrirtæki hafa síðan 1989 lyft grettistaki í að auka úrval af umhverfisvænum vörum og þjónustu á markaði og efla um leið umhverfisvitund almennings. 

Íslenskir neytendur geta nú sem aldrei fyrr valið að kaupa Svansvottaðar vörur í verslunum ásamt því að skipta við fjölda íslenskra, Svansvottaðra fyrirtækja. Á afmælisárinu 2014 bættust þrjú íslensk fyrirtæki í ört stækkandi hóp Svansfyrirtækja, en það voru ræstingarfyrirtækin Bónbræður og Allt hreint ásamt Hótel Fljótshlíð. Í dag eru sjö hótel og farfuglaheimili með Svaninn, sjö ræstingarfyrirtæki, tíu prentsmiðjur og þrjú fyrirtæki í veitingarekstri. 

Vilji fyrirtæki staðfesta metnað sinn og framsýni í umhverfsimálum geta þau sótt um og fengið Svaninn, að uppfylltum ströngum kröfum. Þar að auki geta íslensk fyrirtæki lagt sitt af mörkum til að auka úrval af umhverfisvottuðu á markaði með því að ganga í Innkaupanetið sem er nýtt verkefni Umhverfisstofnunar. Innkaupanetið fór af stað í lok árs 2014 en meðlimir netsins skuldbinda sig til að kaupa umhverfisvottaða vöru og þjónustu þegar þess er kostur og óska eftir umhverfisvottuðu hjá sínum birgjum. Þannig auka fyrirtæki Innkaupanetsins eftirspurn og úrval af vöru og þjónustu, öllu samfélaginu til góða. Meðlimir í Innkaupanetinu er nú níu talsins, en þeir eru N1, Orkuveitan, Landsvirkjun, Toyota, Alcoa Fjarðarál, Verkís, Íslenska gámafélagið, Umhverfisráðuneytið og Umhverfisstofnun. Sambærileg Innkaupanet hafa verið starfrækt á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár og haft góð áhrif á markaðinn sem hefur svarað með auknu úrvali á vörum og þjónustu sem hefur minni umhverfisáhrif. 

Samstarf Norðurlandanna um Svaninn hefur verið farsælt og verið fyrirmynd umhverfismerkja um allan heim. Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, sagði Svaninn vera norrænt ofurmerki þegar hann fagnaði afmæli merkisins með norrænu samstarfsráðherrunum sl. haust. Eftir farsælan samnorrænan rekstur merkisins í aldarfjórðung er nauðsynlegt að líta í eigin barm og skoða með uppbyggilegri gagnrýni hvert halda skuli í framtíðinni. 

Í lok árs 2014 var haldin stór norræn vinnustofa á Íslandi þar sem reynt var að sjá fyrir næstu 25 ár Svansins. Á vinnustofunni tóku þátt m.a. fulltrúar frá norrænu ráðherranefndinni, hagsmunasamtökum atvinnulífsins, verslun og iðnaði og fulltrúar ungra neytenda frá öllum Norðurlöndunum. Þátttakendur á ráðstefnunni voru sammála um að Svanurinn stæði sterkum fótum sem eitt af virtustu og áreiðanlegustu umhverfismerkjum heims og að Svanurinn gæti nýst við að takast á við umhverfisvandamál framtíðarinnar. Niðurstöður vinnustofunnar gáfu til kynna að mikilvægt er að hafa í huga stöðu Svansins í alþjóðavæddu samfélagi þar sem tækniþróun er hröð og þörfin fyrir sveigjanleika er mikil. Með farteskið fullt af reynslu og hugann fullan af möguleikum fer Svanurinn sterkur inn í næstu 25 ár.