Stök frétt

Hjá Umhverfisstofnun er laust til umsóknar starf sérfræðings í loftmengunarteymi. Megin starfssvið hans er vinna við losunarbókhald Íslands um gróðurhúsalofttegundir.Viðkomandi mun einnig hafa aðkomu að viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda auk vinnu við ýmis loftmengunargögn.

Sérfræðingurinn mun starfa innan teymis öflugs hóps sérfræðinga að verkefnum stofnunarinnar tengdum loftslagsmálum þar sem samvinna er eitt af leiðarljósum hópsins. Mikil samskipti eru við evrópskar og alþjóðlegar stofnanir.

Verkefni sérfræðingsins lúta að söfnun gagna, utanumhaldi og útreikningi á losun gróðurhúsalofttegunda frá staðbundinni starfsemi og dreifðum uppsprettum á Íslandi.

Gerð er krafa um meistarapróf í verkfræði, umhverfisfræði, stærðfræði, eðlisfræði eða hagfræði. Þekking á umhverfismálum er forsenda ráðningar. Viðkomandi þarf að vera mjög talnaglöggur, hafa mjög gott vald á Excel og er reynsla af gagnagrunnum kostur. Að öðru leyti verða eftirfarandi kröfur um þekkingu, reynslu og hæfni hafðar til viðmiðunar við val á starfsmanni:

  • Rík samstarfshæfni og sveigjanleiki í samskiptum.
  • Þekking á loftlagsmálum, losunarbókhaldi gróðurhúsaloftegunda og viðskiptakerfi ESB með gróðurhúsalofttegundir
  • Þekking á opinberri stjórnsýslu
  • Skipulögð og öguð vinnubrögð
  • Þekking og reynsla af notkun gagnagrunna
  • Hæfni í framsetningu upplýsinga á skrifuðu og töluðu máli
  • Kunnátta í íslensku, ensku og einu Norðurlandamáli.

Næsti yfirmaður sérfræðingsins er Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri, en Þorsteinn Jóhannsson teymisstjóri veitir nánari upplýsingar um starfið ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur mannauðsstjóra í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að sérfræðingurinn geti hafið störf sem fyrst. Föst starfsaðstaða hans getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Patreksfirði, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum, Hellu eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknarfrestur um starfið er til og með 2. mars 2015 og skulu umsóknir sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.