Stök frétt

Höfundur myndar: Jón Björnsson

Umhverfisstofnun leitar að starfsmanni til að hafa umsjón með friðlandinu á Hornströndum og öðrum friðlýstum svæðum á Norðvesturlandi. Leitað er að starfsmanni með afburðargóða samskiptahæfileika, góða þekkingu á náttúrufræði, líffræði eða umhverfisfræði auk reynslu, þekkingar og úthalds til óbyggðaferða. Verndargildi svæðisins er einstakt en eitt helsta hlutverk starfsmannsins er að varðveita náttúru svæðisins í samvinnu við landeigendur, sveitarfélagið Ísafjarðabæ og hagsmunaaðila.

Helstu verkefni eru:

  • Eftirlit og umsjón með friðlandinu.
  • Gerð starfsáætlana og undirbúningur fyrir verndarráðstafanir
  •  Umsjón með landvörðum og sjálfboðaliðum innan friðlandsins
  • Gerð verndaráætlana
  • Skipulag og umsjón landvörslu
  • Afgreiðsla stjórnsýsluerinda
  • Seta í Hornstrandanefnd
  • Náttúruverndarverkefni á landsvísu
  • Vöktun náttúru- menningarminja og ferðamanna

Gerð er krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi. Að auki verða eftirfarandi kröfur um þekkingu, reynslu og hæfni hafðar til viðmiðunar við val á starfsmanni:

  • Reynsla sem nýtist í starfi
  • Samstarfshæfni og sveigjanleiki í samskiptum
  • Þekking á friðlandinu
  • Þekking og reynsla af verklegum framkvæmdum
  • Þekking á umhverfismálum og náttúruvernd
  • Þekking á almennum rekstri
  • Þekking og/eða reynsla af stjórnsýslustörfum
  • Reynsla af miðlun upplýsinga og fræðslu til mismunandi hópa.
  • Góð íslenskukunnátta, bæði töluð og rituð
  • Góð enskukunnátta. Frekari tungumálakunnátta er kostur

Starfsstöðvar sérfræðingsins eru á starfsstöð Umhverfisstofnunar á Ísafirði og innan friðlandsins á Hornströndum.

Næsti yfirmaður sérfræðingsins er Ólafur A. Jónsson sviðsstjóri, sem jafnframt veitir nánari upplýsingar um starfið ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttur mannauðsstjóra í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf í byrjun maí 2015. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími sé sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is. Umsóknarfrestur um starfið er til og með 2. mars 2015. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin.