Stök frétt

Umhverfisstofnun og fasteignafélagið Reitir hafa skrifað undir samning um Græna leigu en í því felst að báðir aðilar skuldbinda sig til að starfrækja húsnæðið með vistvænum hætti. Samningur þessi felur ekki í sér lækkun á húsaleigu heldur er til viðbótar venjulegum leigusamningi. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að sjálfbærari rekstri og viðhaldi bygginga ásamt því að skapa heilnæmara umhverfi handa starfsfólki. 

Umhverfisstofnun er þegar með ISO 14001 vottun fyrir umhverfisstjórnunarkerfi, og vinnur að innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri. Með því að gera Grænan leigusamning er allt viðhald og rekstur hússins meðtalinn inn í grænar áherslur stofnunarinnar. 

Unnið verður að því í samstarfi við Reiti að innleiða umhverfisvænar breytingar í rekstri húsnæðis að Suðurlandsbraut sem Umhverfisstofnun leigir. Breytingarnar verða innleiddar skv. sex flokkum sem skilgreindir hafa verið sem; sorp og endurvinnsla; rekstur og viðhald; samgöngur; rafmagn; kerfi (loftræsti og kæli) og heitt vatn.