Stök frétt

Flest verjum við um 90% af tíma okkar innandyra og eru því gæði innilofts mikilvæg. Oftast er einfalt að viðhalda heilnæmu innilofti í híbýlum. Margt getur þó haft áhrif og mikilvægt er að huga að því hvernig hægt sé að viðhalda heilnæmu innilofti og bæta það. Þannig má minnka líkur á að inniloft geti haft slæm áhrif á heilsu þeirra sem þar dvelja. 

Umhverfisstofnun hefur gefið út leiðbeiningar fyrir almenning um inniloft, raka og myglu í híbýlum. Leiðbeiningarnar sem eru aðgengilegar hér á vefsíðu Umhverfisstofnunar gefa upplýsingar og ráðleggingar varðandi inniloft, raka og myglu, hreinsun myglu, úrbætur, eftirlit og ábyrgð. Fjallað er sérstaklega um ýmislegt sem tengist þessum þáttum t.d. áhrifaþætti á heilnæmi innilofts, loftræsingu, áhrif myglu á heilsu fólks, sýnatöku, hlífðarbúnað, ábyrgð eigenda og leigjenda húsnæðis og tryggingar. Einnig eru gátlistar til að nota þegar hugað er að þessum þáttum, s.s. góð ráð fyrir heilnæmt inniloft og hreinsun myglu

Leiðbeiningarnar eru byggðar á útgefnu efni frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) og systurstofnunum í Evrópu, Bandaríkjunum og Norðurlöndunum.