Stök frétt

Metnaðarfullar og framsýnar stofnanir geta nú nýtt sér hvatakerfið Græn skref í ríkisrekstri til að stuðla að aukinni sjálfbærni í rekstri og bættri umhverfisvitund meðal starfsmanna. Grænu skrefin eru einföld og aðgengileg leið fyrir opinbera aðila að vinna markvisst að umhverfismálum. 

Við innleiðingu Grænna skrefa er einföldum gátlistum fylgt og eru veittar viðurkenningar fyrir hvert Grænt skref sem tekið er. Markmiðið er að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti en góðum árangri í umhverfismálum getur auk þess fylgt hagræðingu í rekstri og bætt yfirsýn yfir ferla. Með því að stíga skrefin eru stofnanir að innleiða hluta af stefnu ríkisins um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur sem segir að minnka skuli umhverfisáhrif opinberra innkaupa og gera rekstur ríkisstofnanna umhverfisvænni. 

Verkefnið er byggt á vel heppnuðum Grænum skrefum Reykjavíkurborgar, sem góðfúslega gaf leyfi fyrir því að kerfið yrði aðlagað og notað með þessum hætti. Unnið verður náið með Reykjavíkurborg á komandi árum við framþróun verkefnisins enda um jákvætt og spennandi verkefni að ræða sem á erindi inn á sem flesta vinnustaði. Stýrihópur um vistvæn innkaup og grænan ríkisrekstur er í forsvari fyrir Grænu skrefin í ríkisrekstri en Umhverfisstofnun fer með rekstur verkefnisins. 

Á síðasta ári prufukeyrðu nokkrar stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins Grænu skrefin, sem hjálpaði til við aðlögun kerfisins. Græn skref í ríkisrekstri tóku svo sín fyrstu formlegu skref í nóvember árið 2014 og nú í upphafi árs 2015 hafa 18 þátttakendur skráð sig. Nú þegar er búið að veita fyrstu grænu skrefin en það voru Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Landmælingar Íslands og Skipulagsstofnun sem fyrstar ríkisstofnana hlutu viðurkenningu fyrir fyrsta af fimm Grænum skrefum í desember 2014. Það þýðir m.a. að þær hafa hjólagrind fyrir utan vinnustaðinn og það er auðvelt að nálgast strætómiða í afgreiðslunni, allir starfsmenn slökkva á tölvunum sínum þegar þeir fara heim, keypt eru raftæki með góða orkunýtni, notuð eru fjölnota bollar og glös, keyptur er umhverfisvottaður prentpappír og stofnunin skilar grænu bókhaldi. 

Hægt er að skrá sig til leiks og sjá frekari upplýsingar á vefsíðu verkefnisins www.graenskref.is