Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur veitt Matorku ehf., Grindavík starfsleyfi fyrir rekstur fiskeldisstöðvar, vestan Grindavíkur, á reit I-5 á aðalskipulagi Grindavíkur. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða allt að 3.000 tonn samanlagt af bleikju og borra til manneldis, sem og seiðaeldi sömu tegunda í fiskeldisstöð sinni. Leyfið gildir til fiskeldis en nær ekki til slátrunar. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir fiskeldið var auglýst á tímabilinu 28. ágúst til 28. október 2014. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Grindavíkurbæ, Skipulagsstofnun, Matvælastofnun, Fiskistofu, Heilbrigðisnefnd Suðurnesja, Golfklúbbi Grindavíkur, Íslandsbleikju Grindavík, Dýrfisks hf., Hafrannsóknarstofnun, Fiskistofu, Orkustofnunar og Slökkviliðs Grindavíkur. 

Umhverfisstofnun bárust tvær athugasemdir frá Heilbrigðisnefnd Suðurnesja varðandi það að betur mætti gera skil á staðsetningu fyrirtækisins sem og staðsetningu frárennslisops til sjávar. Umhverfisstofnun bendir á að svæðið er enn óbyggt og ekki til nánari útskýringar á staðsetningu lóðarinnar en fram koma á deiliskipulagi fyrir lóðina og í aðalskipulagi Grindavíkurbæjar. Varðandi frárennslið þá kemur fram að það sé leitt til sjávar í Arfadalsvík en ekki hefur verið farið fram á GPS punkt við fyrirhugað frárennslisop. 

Umsækjandi breytti nafni fyrirtækisins á auglýsingatímanum, úr IceAq ehf., yfir í Matorka ehf, Grindavík. Var þessu breytt frá auglýstu starfsleyfi. Að auki var bætt við grein 1.10 sem fjallar um umhverfisábyrgð en í samræmi við lög um umhverfisábyrgð nr.55/2012 þá ber rekstraraðili ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum atvinnustarfsemi. 

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið tók gildi 14. janúar sl. og gildir til 14. janúar 2031.

Tengd gögn