Stök frétt

Heimilt verður að veiða 1412 hreindýr á árinu sem er mesti hreindýrakvóti frá upphafi. Undanfarin ár hefur ásókn í hreindýraveiðileyfi farið vaxandi en undanfarin ár hafa umsóknir verið mun fleiri en leyfin. Umsóknarfrestur um hreindýraveiðileyfi er til og með 15. febrúar og heimilt verður að veiða tarfa frá 15. júlí til og með 15. september en kýr frá 1. ágúst til og með 20. september. Eins og undanfarin ár verður óheimilt að veiða kálfa og veturgamla tarfa. Verð fyrir veiðileyfin eru óbreytt frá í fyrra, 135.000 fyrir tarfa og 80.000 fyrir kýr. 

Greiða skal veiðileyfið ekki síðar en 15. apríl 

Sú breyting verður gerð í ár að veiðimenn sem fá úthlutað veiðileyfi í útdrættinum í febrúar þurfa að greiða veiðileyfið að fullu ekki síðar en 15. apríl. Staðfestingargjald verður lagt niður og allt greitt í einni greiðslu. Þetta er gert til að flýta fyrir afgreiðslu leyfa til þeirra sem lenda á biðlista. Fram til þessa hefur lokagreiðsla ekki þurft að berast fyrr en 30. júní sem hefur gert það að verkum að það var komið fram undir veiðitíma þegar lá fyrir hve mörg leyfi voru að fullu greidd og því ekki hægt að endurúthluta fjölda leyfa fyrr en þá. Færst hefur í vöxt að veiðimenn greiði ekki lokagreiðslu. Þetta hefur haft þau óþægindi í för með sér að skammur tími hefur gefist til að úthluta leyfum sem skilað var inn og þegar haft er samband við veiðimenn eru fjölmargir sem hætta við að fara á veiðar vegna lítils fyrirvara. Með þessari breytingu ættu flestir veiðimenn sem lenda á biðlista að vita mun fyrr en áður hvort þeim standi til boða að fá veiðileyfi. Þetta eykur sömuleiðis líkur á að hægt verði að koma öllum leyfunum út en á síðasta ári náðist það ekki. 

Dregið verður úr umsóknum í lok febrúar. Þeir veiðimenn sem fá ekki úthlutað þá og hafna á biðlista ættu flestir að vita í lok apríl hvort þeim standi leyfi til boða. Eftir sem áður verður haft samband við menn á biðlista þegar nær dregur veiðitímabili ef leyfi losna en vonast er til að þessi breyting muni fækka slíkum tilfellum. 

Nóvemberveiðar 

Á svæðum 7,8 og 9 verður heimilt að veiða kýr í nóvember. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og alls má veiða 138 kýr á þessum svæðum. 

Hreindýrakvóti 2015

   Kýr Tarfar Alls
Svæði 1 151 98 249
Svæði 2 64 70 134
Svæði 3
48  30 78
Svæði 4 21 24 45
Svæði 5 35 43 78
Svæði 6 75 100 175
Svæði 7 260 (60)* 190 450
Svæði 8 68 (38)* 45 113
Svæði 9 60 (40)* 30 90 
Samtals 782 630 1412

 * Þar af dýr sem veiða á í nóvember. 

Eins og sjá má á meðfylgjandi línuriti hafa umsóknir verið mun fleiri en leyfin á undanförnum árum.