Stök frétt

Nýleg skimun á vegum norræna umhverfisvöktunarhópsins (Nordic Screening group) sýnir mengun fjórgildra ammóníumsambanda (Quaternary Ammonium Compounds) í seyru og afrennsli skólphreinsistöðva og í sjávarseti og fiski í grenndinni á Norðurlöndunum. Sýnum var safnað á landfræðilega stóru svæði (Grænland, Ísland, Færeyjar, Danmörk, Svíþjóð og Finnland) en fáum sýnum safnað á hverjum stað. Efnasamböndin mældust ekki í fiski við Ísland enda var honum safnað til viðmiðunar af ómenguðum svæðum vestur af Breiðafirði og norðan Hrútafjarðar. Sýnum af sjávarseti var ekki safnað við Ísland. Sýnum úr afrennsli skólphreinsistöðva hér á landi var safnað í Klettagörðum og Ánanaustum og úr seyru og afrennsli skólphreinsistöðvar í Hraunavík, Hafnafirði. 

Fjórgild ammoníumsambönd eru mikið notuð í ýmsar iðnaðarvörur og vörur til heimilisnota, m.a. í við mýkingarefni, þvottaefni, sótthreinsiefni og rotvarnarefni, og í ýmsar snyrtivörur s.s. hárnæringu. Megin leið efnasambandanna út í umhverfið er því með frárennsli frá byggð. Hluti þessara efnasambanda eru talin vera eitruð sjávar- og vatnalífverum. 

Yfirleitt mældist hærri styrkur fjórgildra ammoníumsambanda í frárennsli frá skólphreinsistöðvum í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi en í Danmörku, Svíðþjóð og Finnlandi. Má gera ráð fyrir að þær niðurstöður endurspegli muninn á meðhöndlun frárennslis í þessum löndum. Þær gefa til kynna að virk meðhöndlun skólps og frárennslis, eins og er í Skandinavíu, minnki verulega magn QAC í afrennsli skólphreinsistöðva. 

Hingað til hefur lítil áhersla verið lögð á mælingar á fjórgildum ammoníumsamböndum í umhverfinu og athuganir á stöðugleika, lífaðgengi og eituráhrifum þeirra í lífverum. Niðurstöður þessarar skimunar sýna að þörf er á ítarlegri rannsóknum á þessum efnasamböndum í framtíðinni. 

Rannsóknin var fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og samstarfsstofnunum. Efnamælingar fóru fram hjá sænsku rannsóknarstofnuninni IVL.