Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

Umhverfisstofnun opnaði í dag, 14. nóvember 2014, sérstaka sýningu um Surtsey í Eldheimum í Vestmannaeyjum. Það var Umhverfis- og auðlindarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannson, sem opnaði sýninguna að viðstöddu fjölmenni en Elliði Vignisson bæjarstjóri Vestmannaeyja og Borgþór Magnússon varaformaður Surtseyjarfélagsins fluttu einnig ávörp. Við sama tilefni undirritaði forstjóri Umhverfisstofnunar nýja verndar- og stjórnunaráætlun fyrir Surtsey. 

Þann 14. nóvember 1963, eða fyrir rúmlega hálfri öld, varð áhöfnin á Ísleifi II frá Vestmannaeyjum fyrst vör við eldsumbrot á yfirborði sjávar 18 km suðvestur af Heimaey. Líklegt er að eldsumbrotin hafi hafist nokkrum dögum fyrr en sjávardýpi var um 130 m á þessum slóðum áður en gosið hófst. 

Surtseyjareldar er lengsta og eitt þekktasta eldgos í sögu Íslandsbyggðar en frá upphafi var fylgst náið með gangi eldgossins í heimspressunni. Surtseyjargosinu lauk 5. júní 1967 og var þá risið nýtt land í Vestmannaeyjaklasanum. Surtsey var friðlýst árið 1965 en með friðlýsingunni var aðgangur almennings að eyjunni takmarkaður mjög. Það var framsýni að friða Surtsey árið 1965 því friðunin, ásamt vöktun og rannsóknum vísindamanna á lífríki og jarðfræði eyjarinnar, á stóran þátt í að Surtsey var samþykkt á heimsminjaskrá UNESCO árið 2008. 

Á sýningunni í Eldheimum er hægt að fræðast um myndun og mótun Surtseyjar og niðurstöður rannsókna sem þar hafa verið gerðar frá upphafi. Sýningin er byggð á grunni sýningar sem sett var upp í Þjóðmenningarhúsinu í tilefni af tilnefningu Surtseyjar til Heimsminjaskrár UNESCO. Hönnuður sýningarinnar í Eldheimum er Axel Hallkell Jóhannesson. 

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar stýrði opnunarathöfninni og er að vonum ánægð með hvernig til hefur tekist. „Það er von mín á þessum degi að allir þeir gestir sem fara hér um, kynslóð fram af kynslóð fram í tímann, geti hér fræðst, endurupplifað og notið eins merkilegasta undurs Íslandsbyggðar á liðinni öld og að heimsókn á þennan stað skilji eftir sig aukinn fróðleiksþorsta um þetta síbreytilega og magnaða land sem við byggjum,“ sagði Kristín Linda Árnadóttir. 

Aðgangur er ókeypis á sýninguna opnunarhelgina 15.-16. nóvember á milli kl. 13:00 og 17:00 og allir hjartanlega velkomnir.