Á heimasíðum Umhverfisstofnunar og embættis Landlæknis er sérstakur borði merktur gosmenguninni og þar má nálgast allar almennar upplýsingar. Þar er til dæmis gagnlegt að skoða töfluna sem sýnir rétt viðbrögð við SO2 mengun. Hún útlistar viðbrögð eftir styrk mengunar og eftir því hvort um heilbrigt fólk sé að ræða eða fólk sem er viðkvæmt.
Daglegar spár um dreifingu mengunarinnar og loftgæðin má nálgast á vef Veðurstofunnar og styrkur mengunarinnar er mældur og miðlað á vefsíðunni Loftgæði.is. Þar má sjá punkta og þegar smellt er á þá má sjá mælingu mengunarinnar á þessum stöðum. Ekki eru allir mælar á landinu nettengdir með þessum hætti en virkni þeirra tryggir að viðvaranir eru gefnar út þegar mengunartoppar ganga yfir. Fjölmiðlar gegna veigumiklu hlutverki við miðlum upplýsinga til almennings og því er nauðsynlegt að fylgjast grannt með þeim og fylgja leiðbeiningum almannavarna sem þar koma fram.