Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur veitt HB Granda hf. starfsleyfi fyrir rekstur fiskimjölsverksmiðju við Hafnarbyggð 7 á Vopnafirði. Nýja leyfið veitir heimild til að framleiða úr allt að 1.150 tonnum af hráefni á sólarhring, en eldra leyfi verksmiðjunnar heimilar framleiðslu úr allt að 850 tonnum á sólarhring. 

Tillaga að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna var auglýst á tímabilinu 9. júlí til 3. september 2014. Auk opinberrar auglýsingar á tillögunni var hún sérstaklega send til umsagnar hjá umsækjanda, Heilbrigðiseftirliti Austurlands og Vinnueftirlitinu. Skipulagsstofnun hafði í febrúar sl. tekið ákvörðun um að aukin afköst fiskimjölsverksmiðjunnar skyldu ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum þar sem þau væru ekki líklega til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. 

Umhverfisstofnun bárust engar athugasemdir við auglýsta tillögu. Breytingar á starfsleyfinu frá auglýstri tillögu voru því ekki miklar. Bætt var við grein 1.10 sem fjallar um umhverfisábyrgð en í samræmi við lög um umhverfisábyrgð nr.55/2012 þá ber rekstraraðili ábyrgð á umhverfistjóni eða yfirvofandi hættu á slíku tjóni af völdum atvinnustarfsemi. Þá var einnig bætt við texta í grein 3.2 um að TVN skráningar skuli sendar eftirlitsaðila eftir hverja vertíð. 

Nánari upplýsingar um meðferð athugasemda eru í greinargerð sem fylgir fréttinni. 

Nýja starfsleyfið öðlaðist gildi 8. október sl. og gildir til 8. október 2030.

Tengd gögn