Stök frétt

Umhverfisstofnun var á síðasta ári falið aukið eftirlitshlutverk með efnum, efnablöndum og hlutum sem innihalda efni. Eitt helsta markmið efnalaga og eftirlits er að tryggja að meðferð á efnum og efnablöndum valdi hvorki tjóni á heilsu manna og dýra né á umhverfi. 

Á þessu ári verða unnin 11 eftirlitsverkefni: 

  • Sæfivörur: Eftirlit með markaðssetningu nagdýraeiturs (vöruflokkur 14) 
  • Sæfivörur: Eftirlit með markaðssetningu skordýraeiturs (vöruflokkur 18)
  • Sæfivörur: Eftirlit með markaðssetningu viðarvarnarefna (vöruflokkur 8) 
  • Flokkun og merking umbúða ætandi efna í byggingavöruverslunum.
  • Eftirlit með markaðssetningu plöntuverndarvara. 
  • Plöntuverndarvörur: tolláritun vs tollafgreiðsla 
  • Snyrtivörur: merking og innihald háralita
  • Snyrtivörur: tilkynning um markaðssetningu snyrtivara í Evrópugrunn 
  • Rapex, samantekt og upplýsingagjöf til birgja 
  • REACH, tilkynningaskylda efna sem notuð eru við rannsóknir og þróun
  • Eftirfylgni með tilkynningum og ábendingum um ólöglega vöru á markaði 

Hefðbundið eftirlit felst í því að fara á staðinn og kanna hvort viðkomandi starfsemi fylgi lögum og reglugerðum. Á tímum netvæðingar er einnig hægt að framkvæma margs konar eftirlit á rafrænan hátt með því að kalla eftir upplýsingum og gögnum. Hvort tveggja er nauðsynlegt við gott eftirlit. Þegar búið er að fá þau gögn í hendur sem óskað er eftir eru þau greind og ef í ljós koma frávik frá reglugerðum þá eru gerðar kröfur um úrbætur. Þeim kröfum er síðan fylgt eftir með viðeigandi hætti þar til úrbætur hafa verið gerðar. Stór hluti eftirlits felst í að upplýsa eftirlitsþegann um þær reglugerðir sem gildi um viðkomandi málaflokk. Málaflokkurinn er flókinn og yfirgripsmikill og því er þessi hluti eftirlitsins afar mikilvægur. 

Umhverfisstofnun er heimilt að veita aðila sem uppfyllir ekki skilyrði efnalaga eða reglugerða settra samkvæmt þeim áminningu og jafnframt hæfilegan frest til úrbóta. Þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests getur Umhverfisstofnun ákveðið honum dagsektir þar til úr er bætt. Stofnuninni er heimilt að takmarka markaðssetningu efnis, efnablöndu eða hlutar sem inniheldur. Í þessu felst m.a. að Umhverfisstofnun getur tekið úr sölu eða dreifingu eða innkallað tiltekin efni, efnablöndur eða hluti sem innihalda efni þar til bætt hefur verið úr ágöllum. Einnig er Umhverfisstofnun heimilt að stöðva markaðssetningu vöru. 

Umhverfisstofnun getur lagt stjórnvaldssektir á einstakling eða lögaðila sem brýtur gegn ákveðnum ákvæðum sem tilgreind eru í lögunum. Sektir sem eru lagðar á einstaklinga geta numið frá 10.000 kr. til 10.000.000 kr. Sektir sem eru lagðar á lögaðila geta numið frá 25.000 kr. til 25.000.000 kr. Stjórnvaldssektum skal beitt óháð því hvort lögbrot eru framin af ásetningi eða gáleysi. Stofnunin hefur ekki áður haft heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir. Telji Umhverfisstofnun svo alvarlega hættu stafa af tiltekinni starfrækslu eða notkun efnis eða efnablöndu að aðgerð þoli enga bið er henni heimilt til bráðabirgða að stöðva starfsemi eða notkun þegar í stað, með aðstoð lögreglu ef þurfa þykir. Umhverfisstofnun getur leitað aðstoðar lögreglu ef með þarf við framkvæmd þvingunarúrræða. 

Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga hafa áfram eftirlit með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfisskyldri starfsemi sem heyrir undir starfsleyfi sem þær gefa út Vinnueftirlit ríkisins fer áfram með eftirlit með meðferð, notkun og merkingum á vinnustöðum og Neytendastofa fer með eftirlit með auglýsingum og svipuðum viðskiptaaðferðum. 

Nánari upplýsingar um eftirlitið og áherslur til ársins 2016 má lesa um í Áherslur í efnamálum 2014-2016. Allar upplýsingar um eftirlitið og niðurstöður eftirlitsverkefna verða birtar hér á vef Umhverfisstofnunar.