Umhverfistofnun - Logo

Stök frétt

GMR
Umhverfisstofnun veitti nýlega GMR Endurvinnslunni ehf. starfsleyfi til að bræða brotajárn í ljósbogaofni. Starfsleyfistillagan var auglýst á tímabilinu 4. september til 30. október 2013. Kynningarfundur var haldinn í Fannahlíð 4. september, þar sem tillagan var kynnt ásamt og með starfsleyfistillögu fyrir Kratus ehf. Reksturinn fer fram að Tangavegi 7 á iðnaðarsvæðinu á Grundartanga.

Alls bárust Umhverfisstofnun athugasemdir og fyrirspurnir frá sex aðilum vegna tillögunnar. Helstu breytingar sem gerðar voru frá tillögunni lúta að breytingum á losunarmörkum en tekin voru upp fjórfalt þrengri losunarmörk fyrir ryk, sem taka gildi 1. mars 2016. Arsen og kadmíum eru nú inni í samtölu fyrir ýmis efni sem einnig var lítillega hækkuð með tilliti til þess og auk þess voru sérstök mörk sett fyrir allan flúor, bæði HF og rykbundinn. Heimilað er með skilyrðum að geyma sex mánaða birgðir af úrgangs- og hliðarafurðum á lóðinni. Einnig var ákveðið að auka tíði á mælingum á útblæstri og hávaða. 

Viðbrögð Umhverfisstofnunar við athugasemdunum hafa verið tekin saman í greinargerð sem fylgir með fréttinni í sérstöku skjali þar sem útlistað er ítarlega hvernig stofnunin brást við þeim athugasemdum sem fram komu. Athugasemdirnar höfðu nokkur áhrif á endanlega afgreiðslu málsins, þó ekki hafi verið hægt að verða við öllum breytingartillögum sem bárust.

Tengd gögn