Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur. Information in English

Stök frétt

Höfundur myndar: Gísli Jónsson

Umhverfisstofnun hefur gefið út endurnýjað starfsleyfi fyrir fiskimjölsverksmiðju HB Granda á Akranesi. Starfsleyfið gefur rekstraraðila heimild til að framleiða fiskimjöl og lýsi úr fiski, afskurði og öðrum fiskúrgangi í verksmiðjunni. Hámarksafköst verksmiðjunnar eru miðuð við að framleitt verði úr allt að 1000 tonnum af hráefni á sólarhring. Starfsleyfið gildir ekki um aðra vinnslu fiskafurða eða rekstur vélaverkstæðis. 

Umhverfisstofnun auglýsti opinberlega tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 21. maí til 16. júlí 2013. Stofnunin framlengdi frest til athugasemda til 30. september, samkvæmt ósk þar um frá Akraneskaupstað og vegna athugasemda frá bæjarbúum. Þann 16. september var haldinn kynningarfundur í húsnæði stjórnsýslustofnunar Akraness, Stillholti 16-18, þar sem starfsleyfistillagan var kynnt. 

 Á auglýsingatíma bárust Umhverfisstofnun þrjár umsagnir um starfsleyfistillöguna, auk þess sem ábendingar frá Heilbrigðisnefnd Vesturlands lágu fyrir áður en auglýsingatímabilið hófst. Þar sem margar góðar ábendingar bárust og mikill áhugi var á málinu, voru gerðar breytingar frá tillögunni þegar leyfið var endanlega gefið út. 

Helstu athugasemdir vörðuðu lyktarmengun, t.d. vegna fjölgunar vinnsludaga á nýrri vinnslulínu fyrir fiskafskurð og fiskúrgang. Aðrar athugasemdir voru um verklag þegar gæði hráefnis er ófullnægjandi, sem og óskir um takmarkaða vinnslu um helgar, yfir sumarmánuði og í óhagstæðum vindáttum. Einnig var óskað eftir aðgerðum til að bæta undirþrýsting í vinnsluhúsum og að hafa lokaðar geymslur fyrir hráefni. Umhverfisstofnun ákvað því að bæta við ákvæði í starfsleyfið um að rekstraraðili skuli gera áætlun gegn loftmengun sem tæki á ofangreindum þáttum. Áætlunin á að vera aðgengileg almenningi og endurskoðast árlega. Að auki hefur leyfinu verið breytt þannig að tilkynningaskyld efri mörk fyrir ferskleika hráefnis (TVN gildi) eru lækkuð (í 100 mg N /100 g) og að hráefni skuli geymt í lokuðum geymslum eða geymum. Í leyfinu eru einnig í fyrsta sinn sett efri mörk fyrir rykinnihald útblásturs frá olíubrennurum í fiskimjölsverksmiðjum (100 mg / Nm3). 

Nokkrar minni orðalagsbreytingar voru einnig gerðar. 

Viðbrögð Umhverfisstofnunar við athugasemdunum hafa verið tekin saman í greinargerð sem fylgir með fréttinni í sérstöku skjali þar sem útlistað er ítarlega hvernig Umhverfisstofnun brást við athugasemdum sem fram komu. 

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 4. desember 2029. Með gildistöku þessa starfsleyfis fellur úr gildi eldra starfsleyfi verksmiðjunnar frá 4. febrúar 2002 sem gefið var út af Hollustuvernd ríkisins.

Tengd skjöl