Stök frétt

16. ársfundur Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga var haldinn þann 24. október síðastliðinn. Þema fundarins var ferðamennska. Að þessu sinni voru Garðbæingar gestgjafar og fór fundurinn fram í safnaðarheimilinu Kirkjuhvoli í Garðabæ. Að fundi loknum var farið í afar fróðlega skoðunarferð um Garðabæ og var leiðsögumaður Erla Bil Bjarnardóttir. 

Í lögum um náttúruvernd nr. 44/1999 er kveðið á um hlutverk náttúruverndarnefnda og í 11. gr. laganna segir að Umhverfisstofnun og fulltrúar náttúruverndarnefnda skuli halda a.m.k. einn sameiginlegan fund á ári. Náttúruverndarnefndir eiga einnig að veita Umhverfisstofnun yfirlit yfir störf sín með skýrslu í lok hvers árs. Í hverju sveitarfélagi starfar þriggja til sjö manna náttúruverndarnefnd sem kosin er til fjögurra ára. 

Náttúruverndarnefndir gegna mikilvægu hlutverki, skulu vera sveitarstjórnum til ráðgjafar um náttúruverndarmál og jafnframt stuðla að náttúruvernd á sínu svæði, m.a. með fræðslu og umfjöllun um framkvæmdir og starfsemi sem líkleg er til þess að hafa áhrif á náttúruna.