Fyrr á þessu ári bárust þær ánægjulegu fréttir af talningum rjúpnastofnsins að stofninn væri á uppleið sem kom nokkuð á óvart. Þessar jákvæðu tölur hafa gefið væntingum rjúpnaveiðimanna byr undir báða vængi og hugsanlega vakið væntingar um veiði sem takmörkuð innistæða er fyrir. Án þess að ætlunin sé að draga úr gleði veiðimanna með stækkandi veiðistofn rjúpu er engu að síður ástæða til að minna á að niðurstaða talninga í vor er sú sjöunda lélegasta frá því talningar hófust. Það er því ekki innistæða fyrir öðru en hóflegum væntingum til rjúpnaveiðinnar.
Af þeim veiðistjórnunaraðgerðum sem gripið hefur verið til er sölubann á rjúpu sú aðgerð sem hefur skilað mestum árangri. Áður en sölubann kom til var magnveiði fárra en afkastamikilla veiðimanna uppistaðan í veiðinni. Það er því ákaflega mikilvægt að veiðimenn temji sér það viðhorf að halda til rjúpnaveiða með hófsemi að leiðarljósi og að virða sölubannið. Ef rjúpnaveiðar eiga að vera sjálfbærar til framtíðar er ákaflega mikilvægt að magnveiði heyri sögunni til. Það eru ákveðin forréttindi sem fylgja því að vera veiðimaður en þau felast m.a. í þeim möguleika að geta veitt rjúpur fyrir sig og sína. Magnveiði vinnur því gegn hagsmunum rjúpnaveiðimanna þegar horft er til framtíðar.
Á þessu ári er heimilt að veiða fjórar þriggja daga helgar.
Það sem af er hefur vetur verið mildur en veiðimenn eru minntir á að útbúa sig vel fyrir veiðarnar og huga að öryggisþáttum. Gott er að hafa eftirfarandi lykilatriði í huga:
Ferðaáætlun sem einhver heima og veiðifélagar vita af er lykilatriði fyrir öryggi á veiðislóð. Ef slys ber að höndum á rjúpnaveiðum er mikilvægt að einhver viti af ferðaáætlun veiðimanns. Ekki er hægt að ganga að því vísu að farsímar virki þegar upp á fjöll er komið þar sem rafhlöður endast ekki vel í kulda og snjallsímar eru viðkvæmir fyrir raka. GPS–tæki nota sömuleiðis rafhlöður sem hafa þarf í huga að dugi þegar á þarf að halda. Áttaviti og kort eru sömuleiðis nauðsyn þó GPS–tæki sé með í för. Raflöður eiga til að klárast á ögurstundu en hefðbundinn áttaviti virkar alltaf. Mikilvægt er að kunna að nota þessi öryggistæki þegar á þarf að halda. Þegar gengið er af stað til veiða er mikilvægt að taka staðsetningarpunkt hjá bílnum eða þeim stað sem ætlunin er að fara til baka á að lokinni veiði og hafa ber í huga að hætta veiðum og halda tímanlega til byggða áður en skyggja tekur.
Að lokum minnum við á að ýmsar gagnlegar upplýsingar fyrir útivistarfólk og veiðimenn er að finna á vefnum safetravel.is.