Stök frétt

Höfundur myndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur auglýst fyrirkomulag rjúpnaveiða til næstu þriggja ára í Stjórnartíðindum. Veitt verður á fjórum þriggja daga helgum, föstudag, laugardag og sunnudag. Rjúpnaveiðar hefjast nú í ár föstudaginn 25. október.

Umhverfisstofnun fagnar því að veiðifyrirkomulag næstu þriggja ára liggi fyrir. Verulegt óhagræði hefur fylgt því fyrir veiðimenn og hlutaðeigandi að ekki hafi verið ljóst fyrr en skömmu áður en veiði hefst hvernig fyrirkomulaginu verði háttað.

Rjúpnaveiðar verða heimilar eftirfarandi daga á þessu ári:
  • Föstudaginn 25. október, laugardaginn 26. október og sunnudaginn 27. október,   
  • Föstudaginn 1. nóvember, laugardaginn 2. nóvember og sunnudaginn 3. nóvember,   
  • Föstudaginn 8. nóvember, laugardaginn 9. nóvember og sunnudaginn 10. nóvember,
  • Föstudaginn 15. nóvember, laugardaginn 16. nóvember og sunnudaginn 17. nóvember.

Veiðimenn eru hvattir til að gæta fyllsta öryggis á rjúpnaveiðum, gera ferðaáætlun og láta vita af henni, kanna veðurspá og huga vel að viðeigandi klæðnaði og öryggisútbúnaði og ennfremur að sýna hófsemi við veiðarnar.

Af þessu tilefni er ástæða til að rifja upp gullkorn úr siðareglum Skotvís þar sem segir að „þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.“

Búið er að gefa út reglugerð sem birt var í gær í Stjórnartíðindum þar sem fyrirkomulag næstu þriggja ár er kynnt.