Stök frétt

Starf svæðalandvarðar á Vesturlandi er fólgið í eftirliti, viðhaldi og fræðslu á friðsvæðum á Vesturlandi. Þetta eru afar ólík svæði s.s. strandsvæði með sérstöku fuglalífi þar af eru tvö Ramsarfriðuð, birkiskógar, fossar, gígar, öræfi, hellar og fólkvangur. Fjölbreytnin er mikil á svæðinu í gróðri, dýralífi, landslagi, jarðfræði og sögu. Mikið er af ferðamönnum bæði íslenskum og erlendum og hefur fegurð og fjölbreytni svæðisins áhrif á það auk þess hvað stutt er til Reykjavíkur. Mesta vinnan er við vinsælustu ferðamannastaðina sem eru náttúruvættin Grábrókargígar og Hraunfossar. 

Sjálfboðaliðahópar hafa verið við störf á Vesturlandi, í fjórar vikur í sumar, á vegum Umhverfisstofnunnar undir stjórn landvarðar. Í Eldborg var unnið í stígnum út að gígnum við að laga þrep og stíginn sjálfan. Við Grábrók vann hópur við að loka gömlum rofum með mosaágræðslu, laga stíga. Einnig var gerð tilraun til að endurheimta landslag, með því að vinna við að loka einum af gömlu stígunum í hlíðum gígsins. Þá vann sjálfboðaliðahópur ýmis viðhaldsstörf við Hraunfossa og Barnafoss. Að lokum var hópur við vinnu upp á Kaldadal við að stöðva og uppræta lúpínu sem er búin að dreifa sér niður í Geitá. Heimafólk hefur tekið vel á móti þessum duglegu sjálfboðaliða hópum frá UST og hefur greitt götu þeirra á ýmsan hátt.