Stök frétt

Út er komin skýrsla á vegum efnavöruhóps Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um merkingar efnavara í matvöruverslunum og stórmörkuðum. Könnunin náði til 3915 efnavara í 56 verslunum á landsvísu og leiddi í ljós að 91% þeirra báru réttar varnaðarmerkingar. Algengasta ástæða vanmerkingar var að merkingar vantaði á íslensku. Fimm verslanir höfðu réttar varnaðarmerkingar á öllum efnavörum.
  • Könnunin náði til níu af tíu heilbrigðiseftirlitssvæðum landsins á tímabilinu nóvember 2011 – júní 2012.
  • Kannaðir voru eftirfarandi þættir: Varnaðarmerkingar efnavara, öryggislok og áþreifanleg viðvörun.
  • 355 af 3915 þeirra efnavara sem skoðaðar voru reyndust vanmerktar. Alls voru því 91% þeirra efnavara rétt merktar á íslensku. Í 6% tilvika vantaði íslenskar varnaðarmerkingar alfarið, í 1 % tilvika vantaði merkingar á hluta birgða og í 2 % tilvika þurftu merkingarnar lagfæringar við. 
  • Fimm verslanir af 56 höfðu allar vörur rétt merktar. Mesti fjöldi vanmerktra vara var 40 og hæsta hlutfall vanmerktra vara var 59% en í meirihluta tilvika undir 10%. Nokkur munur gat verið á hæsta og lægsta hlutfalli vanmerktra vara í keðjuverslunum. Verslanir með eigin innflutning og þar sem vörurnar eru merktar af starfsmönnum í viðkomandi verslun komu lakast út.
  • Öryggislok vantaði í sjö tilvikum og áþreifanlega viðvörun í 11 tilvikum. 
Skífurit um varnaðarmerkingar efnarvara.

Ástandið á merkingum efnavara í stórmörkuðum og matvöruverslunum er gott hjá meirihluta þeirra verslana sem í hlut áttu. Útkoman er öllu betri en í sambærilegri könnun á varnaðarmerkingum í byggingarvöruverslunum fyrir nokkrum árum þar sem hlutfall vanmerktra vara var 45% á móti 9% nú.

Mörg þeirra brota sem koma í ljós við eftirlit með merkingum efnavara eru ítrekuð. Á sumum stöðum virðist vanta að komið sé á skýru verklagi um að tryggja að merkingar verði réttar þar sem sömu atriðin eru jafnan í ólagi. Oft eru það sömu vörurnar sem eru alltaf vanmerktar þrátt fyrir ítrekuð tilmæli. Þá getur sama varan ýmist verið rétt merkt eða ekki. Það á einna helst við í þeim tilfellum þar sem starfsmenn í viðkomandi verslun sjá um að líma merkimiða á vöru. Þá eru dæmi um að sama varan komi frá sitthvorum birgjanum og er aðeins með réttri merkingu frá öðrum þeirra. Munurinn á niðurstöðum milli mismunandi verslana innan sömu keðju gefur til kynna að samræma þurfi verklag innan þeirra til að tryggja að merkingar efnavara verði í lagi.