Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur unnið tillögu að starfsleyfi fyrir fiskeldisstöð Íslandsbleikju ehf., Öxnalæk, Hveragerðisbæ. Stöðin sækir um nýtt starfsleyfi til að framleiða allt að 100 tonnum árlega af laxa- og bleikjuseiðum til flutnings í aðrar fiskeldisstöðvar. 

Ekki liggur fyrir deiliskipulag fyrir svæðið og upplýsti umsækjandi stofnunina um að slíkt væri ekki í bígerð að hans frumkvæði. 

Vinna starfsleyfisins hefur tafist á meðan að aflað var gagna um afstöðu sveitarfélags til starfseminnar í ljósi þess að deiliskipulag liggur ekki fyrir. Er um það ferli vísað til greinargerðar Umhverfisstofnunar sem fylgir með tillögunni. Niðurstaðan varð sú að litið var til þess að sveitarfélagið gerir ekki athugasemdir við að starfsemin fari fram (að því gefnu að mengunarvarnir séu góðar), að starfsemin var ákveðin í tíð eldri skipulagslaga og að hún hefur verið á þessum stað í langan tíma í sátt við byggingarfulltrúa og önnur yfirvöld sveitarfélaganna. 

Varðandi starfsleyfistillöguna sjálfa hefur Umhverfisstofnun gert athugasemdir við frágang fráveitunnar og er í tillögunni gert ráð fyrir því að veita skuli frest vegna ákvæðis um hreinsun svifagna og losun á fosfór og köfnunarefni. Þessum úrbótum skal vera lokið fyrir 1. september 2013 samkvæmt tillögunni. 

Tillagan mun liggja frammi ásamt umsóknargögnum á skrifstofu Hveragerðisbæjar, Sunnumörk 2, á tímabilinu 28. desember 2012 til 22. febrúar 2013. Einnig eru gögnin aðgengileg á heimasíðu Umhverfisstofnunar á sama tíma. 

Frestur til að gera athugasemdir við tillöguna er til 22. febrúar 2013.