Stök frétt

Ísland er auðugt af vatni og almennt telur fólk að gæði vatns á Íslandi séu góð. Hér á landi er þó ýmiss starfsemi sem getur valdið álagi á vatn. Helsta mengunarálag á vatn á Íslandi er af völdum óhreinsaðs skólps frá þéttbýlisstöðum, og er álagið sennilega mest í strandsjó við Akureyri, Húsavík og fyrrum Keflavík (Reykjanesbæ). Annað helsta álag á vatn er líklega losun lífrænna efna frá fiskeldi og fiskvinnslum og efnalosun vegna jarðvarmavirkjana, sorpmeðhöndlunar, gamalla urðunarstaða og slippasvæða. Dreifð losun mengandi efna frá landbúnaði, framræslu lands, landgræðslu, skógrækt, frístundabyggð og öðrum byggðum er minna þekkt en bein losun.

Drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands eru auglýst til kynningar í sex mánuði, frá 7. desember 2012 til 7. júní 2013. 

Í drögunum er leitað svara við því hvaða þættir geti valdið álagi á vatn á Íslandi. Markmiðið er að tryggja að kröftum okkar sé beint að þeim vandamálum sem við stöndum frammi fyrir frekar en að dreifa þeim á svið sem litlu máli skipta.  Stöðuskýrslan í endanlegri mynd liggur svo til grundvallar vatnaáætlun þar sem strangar kröfur um ástand vatns eru tilgreindar. Drögin eru tekin saman í samvinnu vatnasvæðisnefnda, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og Umhverfisstofnunar og byggja á fyrirliggjandi gögnum. Nú er kallað eftir frekari gögnum og gefst hverjum sem er færi á að koma ábendingum á framfæri hvað varðar ástand vatns í tengslum við drögin að stöðuskýrslunni.

Eitt af markmiðunum með að gefa góðan tíma til athugasemda við drögin er að fá umræðu meðal almennings, sveitarfélaga, hagsmunaaðila og allra þeirra sem vinna með vatn. 

Hægt er að koma á framfæri athugasemdum og upplýsingum í gegnum vef Umhverfisstofnunar, með tölvupósti á ust@ust.is eða með því að senda póst á:

Umhverfisstofnun
Drög að stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði Íslands
Suðurlandsbraut 24
108 Reykjavík

Tengt efni