Stök frétt

Miðvikudaginn 28. nóvember sl. hélt Umhverfisstofnun opinn fund til kynningar á tillögu að nýju starfsleyfi fyrir starfsemi Efnaeimingar ehf. í Höfnum. Fór fundurinn fram í safnaðarheimilinu í Höfnum. Samkvæmt tillögunni mun nýtt starfsleyfi heimila Efnaeimingu flutning og endurvinnslu á allt að 80 tonnum af tilteknum spilliefnum á ári. Mun starfsleyfið gilda til næstu sextán ára.

 Fyrir hönd Umhverfisstofnunar sóttu kynningarfundinn Guðmundur B. Ingvarsson og Sigríður Kristjánsdóttir. 

Starfsleyfistillöguna og starfsleyfisumsókn Efnaeimingar má nálgast í afgreiðslu Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, Reykjanesbæ, og á vef Umhverfisstofnunar. Frestur til að gera athugasemdir við starfsleyfistillöguna er til 27. desember nk. Allar athugasemdir skulu vera skriflegar, undirritaðar með nafni og heimilisfangi og sendar Umhverfisstofnun.