Stök frétt

Höfundur myndar: René Biasone

Helgina 5-7. október tók fjölbreyttur hópur fólks þátt í Big Green Weekend sem er alþjóðlegur viðburður, þar sem sjálfboðaliðar í náttúruvernd koma saman og láta gott af sér leiða. Þetta er í annað skipti sem Umhverfisstofnun tekur þátt í þessum viðburði og í þetta sinn var óskað eftir íslenskum sjálfboðaliðum gegnum íslensk náttúruverndarsamtök, sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu.

Big Green Weekend á Íslandi hófst á friðlýsta svæðinu Laugarási í Reykjavík. Þar könnuðu sérfræðingur, starfsmenn Umhverfisstofnunar og nokkrir sjálfboðaliðar ástand svæðisins sér í lagi hvað varðar áhrif ágengra framandi plöntutegunda og annars gróðurs á náttúruvættið og undirbjuggu verndarráðstafanir sem sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar munu fara í næsta vor.

Laugardaginn 6. október og sunnudaginn 7. október fór hópur sjálfboðaliða úr Fuglavernd, Framtíðarlandinu og Landvernd, ásamt sjálfboðaliðum frá Umhverfisstofnun á friðlýsta svæðið Eldborg í Bláfjöllum og unnu þeir þar ötullega við að setja upp merkingar, loka fyrir slóða með grjóti, afmarka bílastæði við Bláfjallaveg og afmarka göngustíga með því að græða sár sem myndast hafa í mosann vegna ágangs ferðamanna.

Tugir metra af mosa var græddur með svokallaðri ”Moss Transplanting“- aðferð, þar sem mosi er tekinn af öðru svæði án þess að skaða landslagið, hann settur á bretti og fluttur til Eldborgar. Mosinn var settur á slóða sem hafði verið undirbúinn með grjótundirlagi sem er nauðsynlegt til að mosinn nái að festast.

Þessi aðferð er vel þekkt og oft notuð á friðlýstum svæðum sem eru í umsjá Umhverfisstofnunar. Þess má geta að í sumar var aðferðin notuð í Grábrókargígum en einnig í Vatnajökulsþjóðgarði, þar sem sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunar vinna við hlið landvarða og þjóðgarðsvarða yfir sumartímann.

Vegna Big Green Weekend komu, auk hinna, tveir reyndir sjálfboðaliðar frá Bretlandi og Þýskalandi. Þeir hafa unnið á Íslandi átta sumur í röð og eru orðnir sérfróðir um sértækar aðgerðir í náttúruvernd og búa yfir dýrmætri kunnáttu sem Umverfisstofnun vill varðveita. Þess vegna meðal annars, tekur Umhverfisstofnun þátt í námskeiði í göngustígagerð sem Hólaskóli skipuleggur í maíbyrjun ár hvert.

Sumarið 2012 unnu sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar 2.220 vinnudaga (444 mannvikur) á 30 svæðum um allt land. Frá Hornströndum til Lónsöræfa, frá Reykjanesi til Ásbyrgis, frá Snæfellsnesi til Kverkfjalla og má segja að með Big Green Weekend er sjálfboðaliðastarfi í náttúruvernd fyrir árið 2012 formlega lokið.

Umhverfisstofnun vill þakka þessum 180 erlendu sjálfboðaliðum sem komu til Íslands í ár og unnu gríðarlega mikilvæga vinnu í þágu náttúruverndar. Kærar þakkir fá allir þeir sem lögðu hönd á plóg við að gera starfið mögulegt og sérstakar þakkir fá þeim sem tóku þátt á Big Green Weekend og við vonum að þessi atburður muni hjálpa við að koma á hefð í sjálfboðaliðastarfi í náttúruvernd meðal Íslendinga.

Á Íslandi eru 108 friðlýst svæði og af þeim eru sautján á höfuðborgarsvæðinu.

 

Myndir