Stök frétt

Umhverfisstofnun stendur nú fyrir samkeppni um framtíðarsýn á ferðamannasvæðinu við Gullfoss í samvinnu við Arkitektafélag Íslands. Samkeppnin er styrkt af Framkvæmdasjóði ferðamanna. Samkeppnin er hugmyndasamkeppni og er opin öllum: Arkitektum, landslagsarkitektum og öðrum þeim er hafa áhuga á Gullfossi og friðlandinu við Gullfoss. Umhverfisstofnun hyggst með samkeppninni  fá fram góðar hugmyndir sem leggja má til grundvallar framtíðaráformum um framkvæmdir á friðlandinu við Gullfoss.

Aðdragandi hugmyndasamkeppninnar er m.a. sá að ár hvert kemur mikill fjöldi gesta, erlendra og innlendra að skoða Gullfoss og nágrenni. Vegna hins mikla fjölda er heimsækir svæðið er þar mikill ágangur.  Árið 2010 var ferðamannasvæðið við Gullfoss, eitt þeirra 10 svæða er sett voru á svokallaðan „rauðan lista“ yfir svæði sem Umhverfisstofnun taldi í hættu á að missa verndargildi sitt.

Því þarf að halda áfram að byggja upp stíga og útsýnispalla og setja upp gróðurverndargirðingar, bæði til þess að hlífa umhverfinu og einnig til að tryggja aðgengi allra að fossinum eins og kostur er. Umhverfisstofnun leggur áherslu á að mikilvægi þess að allar framkvæmdir á samkeppnissvæðinu verði afturkræfar og svæðinu verði skilað jafngóðu eða í betra ástandi til komandi kynslóða.

Keppnislýsing og upplýsingar um hugmyndasamkeppnina eru á sérstöku vefsvæði keppninnar

Keppnisgögn er hægt að nálgast á skrifstofu Arkitektafélags Íslands Engjateig 9 milli 9 og 13 og hjá trúnaðarmanni dómnefndar Haraldi Helgasyni arkitekt FAÍ, Hvassaleiti 74, 103 Reykjavík. Netfang hans er  harh [hjá] mail.is og sími: 568-2707 og 897-6874.

Umhverfisstofnun hvetur sem flesta til að taka þátt í þessari áhugaverðu hugmyndasamkeppni.


360° mynd af Gullfoss