Vinna við nýjar heimasíður Umhverfis- og orkustofnunar og Náttúruverndarstofnunar er í gangi. Heimasíða Umhverfisstofnunar er virk á meðan vinnunni stendur.

Stök frétt

Umhverfisvöktun vegna álvers Alcoa Fjarðaál í Reyðarfirði í sumar hefur leitt í ljós hækkaðan styrk á flúor í grasi í firðinum. Gildin eru umfram viðmið fyrir grasbíta. Að mati Umhverfisstofnunar er ekki um að ræða hættu fyrir fólk en full ástæða til að bregðast við, kanna hvort áhrifa gæti í búfé í firðinum og hver styrkur flúors sé í heyi áður en teknar verði ákvarðanir um frekari aðgerðir.

Umhverfisstofnun hefur þegar kallað eftir nánari úttekt á orsökum og afleiðingum þessa. Þær aðgerðir eru hafnar hjá Alcoa Fjarðaál.

Þriðjudaginn 2. október upplýsti Alcoa Fjarðaál Umhverfisstofnun um að frumniðurstöður greininga á styrk flúors í grasi í Reyðarfirði hafi sýnt hækkuð gildi miðað við undanfarin ár Sérstaklega þá á svæðinu norðvestan við álverið. Mælingar í grasi utan þynningarsvæðis sýndu að styrkur flúors við norðanverðan fjörðinn mældist víða á bilinu 60-80 µg/g og upp í 104 µg/g. (Sjá umfjöllun um viðmið að neðan.) Jafnframt upplýsti fyrirtækið um að þegar hefði verið óskað eftir tillögum að frekari rannsóknum hjá Náttúrustofu Austurlands og Umhverfisstofnun myndi fá þær sendar þegar þær lægju fyrir.

Umhverfisstofnun hefur enn fremur kannað gildi annarra efna í útblæstri og í andrúmslofti og eru þau innan marka skv. mælingum.

Umhverfisstofnun hefur greint sveitarstjórn, heilbrigðiseftirliti og Matvælastofnun frá málinu. Alltaf þegar upp koma tilvik þar sem mælingar gefa til kynna mengun sem getur haft áhrif á lífríkið er viðeigandi aðilum gert viðvart sem og fjölmiðlum.

Grasbítar eru viðkvæmari fyrir flúormengun og þekkt eru skaðleg áhrif flúormengunar á tennur í sauðfé og hestum (gaddur), t.d. í kjölfar eldgosa.

Flúor er einn helsti mengunarvaldur frá álverum. Flúorinn hleðst upp í gróðri, að hluta til gengur hann inn í vefi og að hluta situr hann utan á gróðrinum. Áhrifa af flúor gætir alla jafna vegna uppsöfnunar fremur en hárra einstakra gilda og því eru ákvæði um styrk flúors í gróðri miðuð við meðalgildi á sex mánaða tímabili.

Í starfsleyfi Alcoa eru eftirtalin ákvæði um losun og styrk flúors:

a) Losunarmörk, magn heildarflúors í útblásturslofti (hreinsuðu gasi frá kerum og ræstilofti frá kerskála) skal ekki vera yfir:

  •  mánaðarmeðaltal ekki yfir 0,8 kg F / tonn framleitt ál
  • ársmeðaltal ekki yfir 0,35 kg F / tonn framleitt ál

b) Umhverfismörk, styrkur flúors í andrúmslofti utan skilgreinds þynningarsvæðis skal ekki vera yfir 0,3 µg/m3 andrúmslofts, reiknað sem meðaltal fyrir tímabilið 1. apríl til 30. september.

Alcoa sendir Umhverfisstofnun niðurstöður mælinga fyrir útblástur á þriggja mánaða fresti og eru tölur um útblástur fram til loka júní aðgengilegar á heimasíðu stofnunarinnar en ekki liggja fyrir niðurstöður mælinga fyrir tímabilið júlí-september. Þær mælingar sem hafa borist eru undir mörkum í starfsleyfi.

Ekki eru til föst gildi um styrk flúors í gróðri og grasbítum í reglugerðum og ekki er samræmi í vísindagreinum hvað varðar þolmörk búfjár varðandi flúor í fóðri. Almenn viðmið eru að skemmdir geti komið fram í viðkvæmum gróðurtegundum við um 30-100 µg/g. Ennfremur að hætta sé á skaðlegum áhrifum í grasbítum ef styrkur flúors í fóðri (grasi) fari yfir 30-60 µg/g. Af þessum sökum hafa ekki verið sett föst ákvæði um styrk flúors í gróðri eða grasbítum í starfsleyfum. Hins vegar er fylgst vel með þessu í nágrenni álvera og gripið inn í ef niðurstöður vöktunar eru yfir umræddum gildum og/eða skaðleg áhrif koma í ljós. Flúor er mælt á fjórum stöðum: í rjáfri álversins, í skorstein, í andrúmslofti utan þynningarsvæðis (fjórar mælistöðvar) og í gróðri á svæðinu.

Umhverfisstofnun mun koma á framfæri frekari upplýsingum þegar þær liggja fyrir.

Um flúor og fólk

Hvað varðar áhrif flúors á fólk er vel þekkt að flúor í hóflegum skömmtum bætir tannheilsu og það er þess vegna að finna í mörgum tegundum af tannkremi. Flúor er auk þess í margvíslegri fæðu, einkum sjávarfangi og ostum og í einhverjum tilfellum er flúor bætt í drykkjarvatn. Ofneysla hefur hins vegar skaðleg áhrif þar sem það dregur úr styrk beina og veldur skemmdum á tönnum. Ekki er talið að hætta sé fyrir fólk vegna uppsöfnunar flúors í Reyðarfirði.

Leiðrétting, 5. október kl. 13:45: Upphaflega var talað um að „Almenn viðmið eru að skemmdir geti komið fram í viðkvæmum gróðurtegundum við um 100-200 µg/g." en hið rétta er að þau mörk eru 30-100 µg/g.