Stök frétt

Mynd: Hjörleifur Hjartarson

Höfundur myndar: Hjörleifur Hjartarson

Þann 12. september 2012 voru 40 ár liðin frá því Friðland Svarfdæla var stofnað. Friðland Svarfdæla var fyrsta friðland sem stofnað var á landinu eftir nýjum lögum um náttúruvernd og er stofnun þess jafnframt fyrsta friðun votlendis á Íslandi.

Friðlandið nær yfir 8 km2 svæði  í neðanverðum Svarfaðardal, meðfram bökkum Svarfaðardalsár. Þar er að finna fjölbreytt  lífríki með votlendisgróðri og óvenju fjölskrúðugu fuglalífi. 

Tólf landeigendur í neðanverðum Svarfaðardal lögðu land undir Friðlandið á sínum tíma með tilheyrandi kvöðum. Það er sérstaklega merkilegt þegar haft er í huga að árið 1972 fengu bændur umtalsverða ræktunarstyrki fyrir þurrkun mýrlendis, sem náði hámarki á þessum árum. 

Á síðustu árum hafa verið lagðir fræðslustígar við Tjarnartjörn og Hrísatjörn með á annað hundrað upplýsingaskiltum um fuglalíf og gróðurfar í Friðlandinu. Einnig hafa verið byggð fuglaskoðunarhús og gerð útskot á fyrir fuglaskoðara. Þá var í fyrra opnuð sýningin Friðland fuglanna á Náttúrusetrinu á Húsabakka í Svarfaðardal þar sem fjallað er um fuglana í Friðlandinu á nýstárlegan og fræðandi hátt.