Stök frétt

Ráðgjafarnefndum komið á fót

Settar hafa verið á stofn ráðgjafanefndir sem ætlað er að vera Umhverfisstofnun og Vatnaráði til ráðgjafar um mál sem heyra undir lög um stjórn vatnamála.

Fjölmennar nefndir

Nefndirnar eru tvær, ráðgjafarnefnd hagsmunaaðila (15 fulltrúar) og ráðgjafanefnd fagstofnana og eftirlitsaðila (19 fulltrúar). Umhverfisráherra skipaði í nefndirnar í maí sl. en þær taka til starfa á næstu vikum. Kostnaður af setu nefndarmanna í nefndunum er greiddur af tilnefningaraðilum.

Störf að hefjast

Nefndirnar hefja störf innan skamms. Af því tilefni stóð Umhverfisstofnun fyrir kynningarfundi fyrir fulltrúana þar sem farið var yfir hið nýja stjórnkerfi vatnamála og hlutverk ráðgjafarnefndanna. Starfsmaður ráðgjafanefndar fagstofnana og eftirlitsaðila er Tryggvi Þórðarson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og starfsmaður ráðgjafanefndar hagsmunaaðila er Helgi Jensson ráðgjafi hjá Umhverfisstofnun.

Mikilvægt hlutverk

Innleiðing ákvæða laga um vatnastjórn er nú komin vel á veg. Ráðgjafarnefndirnar gegna þar þýðingarmiklu hlutverki. Fulltrúar þeirra skulu vera til ráðgjafar um málefni sem samtök þeirra og stofnanir helga sig. Ráðgjafanefnd fagstofnana og eftirlitsaðila skal einnig leggja fram nauðsynleg tiltæk gögn vegna vinnu við gerð áætlana (vöktunaráætlun, aðgerðaráætlun og vatnaáætlun).

Náið samráð

Umhverfisstofnun skal hafa náið samráð við ráðgjafarnefndir vegna vinnu við gerð aðgerða-, vöktunar- og vatnaáætlana og leggur nefndunum til starfsmann.

Allar nefndir til staðar

Með ráðgjafanefndunum eru allar nefndir sem mælt er fyrir um í tengslum við stjórn vatnamála teknar til starfa. Hinar eru Vatnaráð sem er umhverfisráðherra til ráðgjafar og fjórar vatnasvæðisnefndir sem m.a. samræmir vinnu við gerð vatnaáætlunar og er rannsóknastofnunum til ráðgjafar um málefni viðkomandi vatnasvæðis.

Myndir af kynningarfundinum

Frekari upplýsingar