Stök frétt

Sóa Íslendingar vatni? er yfirskrift fyrirlesturs sem Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar heldur í Þjóðminjasafninu miðvikudaginn 5. september. Fyrirlesturinn er sá þriðji í röð hádegisfyrirlestra um vatn sem umhverfisráðuneytið, Landgræðsla ríkisins, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands og Vatnafræðinefndin efna til í tilefni af evrópsku ári vatnsins.

Í fyrirlestrinum mun Kristín Linda fjalla um vatnsnotkun Íslendinga og félagsleg og menningarleg áhrif vatns á Íslandi. Íslendingar eru meðal vatnsauðugustu þjóða sem endurspeglast í umgengni þeirra um vatn. Þá hefur vatn ýmis áhrif á samfélag okkar og menningu; þannig njótum við þess að hafa einstaklega gott aðgengi að almenningssundlaugum, þvottar eru ekki tiltökumál hérlendis og rennandi neysluvatn úr krana þykja sjálfsögð gæði í daglegu lífi. Erum við að sóa vatni eða er þetta eðlileg notkun á óþrjótandi gæðum?

Í fyrirlestrum fyrr á árinu hefur verið fjallað um stærð og eðli vatnsauðlindarinnar á Íslandi annars vegar og í Afríku hins vegar þar sem vatn er víða af skornum skammti. Þá hefur verið fjallað um samspil vatns og jarðvegs.

Fyrirlesturinn hefst kl. 12:10 og verður lokið fyrir kl. 13:00. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.