Stök frétt

Fuglar

Veiðitímabil á grágæs og heiðagæs hefst í dag mánudaginn 20. ágúst. Samkvæmt talningum þá var grágæsastofninn um 119 þúsund fuglar 2011 og heiðagæsastofninn um 250 þúsund fuglar. Heiðagæsastofninn hefur verið um 300-350 þúsund en slæmt árferði 2011 virðist hafa komið verr niður á honum en grágæsinni. Meðalveiði á ári ef skoðuð eru síðustu 10 árin eru um 40 þúsund grágæsir og um 15 þúsund heiðagæsir. Grágæsaveiðin var hvað mest árið 2009 af þessum 10 árum en þá var hún rúmir 58 þúsund fuglar. Veiði á heiðagæs var að sama skapi mest árið 2009 eða tæplega 20 þúsund fuglar. Blesgæs er áfram friðuð eins og undanfarin ár og þar er mjög mikilvægt að veiðimenn virði þá friðun þannig að hægt sé að byggja þennan stofn upp. Góður árangur hefur nást með friðuninni þar sem fækkunin hefur stöðvast og vísbendingar eru um að stofninn sé farinn að vaxa á ný. Umhverfisstofnun vil beina þeim tilmælum til veiðimanna að gæta sérstaklega að blesgæsinni á þeim svæðum sem hún hefur dvöl á.

Veiðimönnum er falin mikil ábyrgð þegar þeim er veitt leyfi til veiða. Sú ábyrgð fellst ekki eingöngu í réttri meðhöndlun á skotvopnum heldur einnig virðingu fyrir náttúrunni og ekki síst bráðinni. Í ár hafa SKOTVÍS. Olís og Umhverfisstofnun endurvakið mikilvægt átak „Láttu þitt ekki eftir liggja“ sem miðar að því að hvetja veiðimenn til að ganga vel um landið og skilja ekki annað en spor sín á veiðislóð.

Líkt og árið 2011 þá stóðu SKOTVÍS og Umhverfisstofnun einnig fyrir „Dúfnaveislu“ en það átaksverkefni miðar að því að veiðimenn undirbúi sig fyrir veiðarnar og æfir hittni sína áður en lagt af stað til veiða. Dúfnaveislunni líkur 31. ágúst en þá verða dregnir út vinningshafar úr innsendum skorkortum.

Endurnýjun veiðikorta

Veiðimenn eru minntir á að endurnýja veiðikort sín enda er einungis heimilt að stunda skotveiðar á fuglum sé veiðikort meðferðis. Hægt er að endurnýja veiðikortið á vefsíðu Umhverfisstofnunar.

Skil á fuglamerkjum

Sérstök ástæða er til að hvetja veiðimenn til að skila inn merkjum ef þeir veiða merkta fugla. Upplýsingarnar sem merkin veita eru mikilvægar fyrir rannsóknir á þessum veiðistofnum. Merkjunum á að skila til:

  • Náttúrufræðistofnun íslands
  • Fuglamerkingar
  • Urriðaholtsstræti 6-8
  • Pósthólf 125
  • 212 Garðabær

Upplýsingar um hvað þarf að fylgja með fuglamerkjum er að finna í Veiðidagbókinni sem fylgir veiðikortinu en einnig má fá upplýsingar í síma 590 0500 hjá Náttúrfræðistofnun Íslands.

Skil á gæsavængjum

Nú í ár eins og undafarin ár munu Arnór Þ. Sigfússon og Halldór W. Stefánsson á Austurlandi safna og skoða gæsa- og andavængi til að meta hlutfall unga frá sumrinu. Vilji menn senda inn vængi skulu þeir senda vængi sömu megin af öllum fuglunum, t.d. hægri væng. Nánari upplýsingar um þetta má sjá á bls. 48 í Veiðidagbókinni 2010 eða í símum 4228000/8434924 (Arnór - ats@verkis.is) og á austurlandi 4712553/8465856 (Halldór – halldor@na.is ).

Ef vængir eru geymdir og sendir þá má ekki geyma þá í plasti lengi því þá úldna þeir fljótt. Best er að leyfa þeim að þorna og setja svo í pappakassa. Ef vængir eru höggnir af þá sendið alltaf vængi sömu megin af öllum fuglunum, t.d. hægri væng. Látið fylgja með nafn, síma, heimilisfang og/eða netfang og hvenær gæsirnar og endurnar voru veiddar og gjarnan á hvaða veiðisvæði skv. veiðidagbók veiðistjórnunarsviðs. Við sendum ykkur svo til baka aldurshlutfall í aflanum ykkar.