Stök frétt

Umhverfisstofnun vill vekja athygli á vöru sem fannst nýverið á markaði hér á landi og uppfyllir ekki kröfur reglugerðar. Um er að ræða leikfang, svokallaða stressbolta, sem fyrirtækið Tanni ehf. flutti inn og seldi til augnlæknastofunnar Sjónlags sem gaf þá sjúklingum sínum, allt fullorðnum einstaklingum, á árunum 2009-2011. Eftirlitsaðilar í Bretlandi komust að því að samskonar boltar sem seldir voru þarlendis innihalda 0,187% af hormónaraskandi efninu DEHP sem er ein tegund þalata. Leyfilegur styrkur DEHP í leikföngum er 0,1% skv. reglugerð nr. 750/2008 (REACH reglugerðinni). Það var Neytendastofa sem fékk upplýsingar um að Tanni ehf. og Sjónlag hefðu sett umrædda stressbolta á markað hér á landi. Neytendastofa upplýsti Tanna ehf. um að þeir væru ólöglegir og var markaðssetningu á þeim hætt. Þar sem styrkur DEHP er það lítið yfir leyfilegum mörkum er það mat Umhverfisstofnunar að ekki sé um alvarlega heilsufarsógn að ræða og því ekki ástæða til að innkalla vöruna af markaði. Vilji fólk hins vegar losa sig við þá er bent á að óhætt er að henda þeim með almennu heimilissorpi.

Reglulega berast fréttir af vörum á markaði í Evrópu sem ekki uppfylla settar kröfur um t.d. efnainnihald og öryggi. Eftirlitsaðilar í viðkomandi landi skrá upplýsingar um slíkar vörur inn í sameiginlegt tilkynningakerfi Evrópu sem er opið almenningi á netinu.  Á heimasíðu í ráðuneyti neytendamála hjá framkvæmdastjórn ESB er hægt að skoða hvaða ólöglegu vörur hafa fundist á markaði í Evrópu og birtast nýjar upplýsingar í hverri viku.