Stök frétt

Sjálboðaliðar Umhverfisstofnunar við vinnu í Eldborg í Hnappadal

Höfundur myndar: Lárus Kjartansson

Mikið hefur verið um framkvæmdir á friðlýstum svæðum á vegum Umhverfisstofnunar það sem af er sumars. Á Vesturlandi hafa sjálboðaliðar Umhverfisstofnunar unnið ásamt landverði á friðlýsta svæðinu við Eldborg í Hnappadal við lagfæringar á göngustíg sem liggur að Eldborg og Litlu Eldborg. Eins hefur leiðum sem voru að myndast á nokkrum stöðum í gígnum verið lokað og bætt hefur verið við merkingar á svæðinu.

Á friðlýsta svæðinu í Vatnshornsskógi hafa verið sett upp í samstarfi við Skógrækt ríkisins þrjú upplýsinga og fræðsluskilti sem vekja athygli almennings á því að það er komið inn á friðland og að þar gildi ákveðnar umgengnisreglur. Á skiltunum eru upplýsingar um friðlandið svæðið býr yfir mikilli líffræðilegri fjölbreytni og er þar t.d. að finna sjaldgæfar tegundir fléttna.

Mikill straumur ferðamanna hefur verið í allt sumar í Grábrókargígum. Þar hafa sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar unnið ásamt landverði við það að viðhalda göngupöllum, settir hafa verið 200 járnstaurar og kaðlar til að afmarka enn frekar gönguleiðir um Grábrók og varna því að fólk gangi ekki utan stíga. Eins hefur verið unnið í því að laga mosaskemmdir, settur upp veggur til að stoppa af sandskriður og einnig hefur gönguleiðin frá Grábrók að Bifröst verið merkt. Þess má geta að Grábrókargígar voru á rauðum lista Umhverfisstofnunar yfir þau svæði sem stofnunin taldi í hættu á að tapa verndargildi sínu og að grípa þyrfti til aðgerða til að sporna við þeirri þróun.

Steðji er friðlýst náttúruvætti í Hvalfirði og hefur Umhverfisstofnun unnið að því í sumar að laga aðgengi fólks upp svokallaðan Skeiðhól sem Steðji stendur á. Búinn hefur verið til göngustígur upp að Steðja og upp á Skeiðhól þannig að fólk geti notið þess frábæra útsýnis sem þar er að finna yfir Hvalfjörðinn.

Í sumar er einnig á áætlun að setja upp upplýsinga og fræðsluskilti við Grunnafjörð en fjörðurinn er einnig Ramsar svæði og er þar að finna mikið og auðugt fuglalíf.

Gaman er að segja frá því að landvörður Umhverfisstofnunar hefur séð þó nokkuð af uglum á ferðum sínum um friðlýst svæði á Vesturlandi í sumar. Einnig má nefna að berjaspretta virðist vera með besta móti og hefur landvörður einnig fundið mikið af sveppum t.a.m. kóngasveppi við Eldborgina.

Umhverfisstofnun vill brýna fyrir fólki að ganga vel um landið og henda ekki rusli nema í þar til gerð ílát.