Stök frétt

Höfundur myndar: Sigurður Ingason

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Rifós hf. til að framleiða árlega samanlagt allt að 1000 tonn af laxi og bleikju, þar af allt að 600 tonn af laxi, á ári í sjókvíum í Innra-Lóninu í Kelduhverfi. Einnig er heimilt að reka á staðnum seiðaeldi og sláturhús til eigin nota á eldisstað.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 16. júní til 11. ágúst 2011. Athugasemd um tillöguna barst frá Skipulagsstofnun. Þar kom fram að Skipulagsstofnun teldi tillögu að starfsleyfi vera í samræmi við ákvörðun stofnunarinnar um matsskyldu. Skipulagsstofnun benti hins vegar á að framkvæmdin þyrfti að vera í samræmi við skipulag.

Umhverfisstofnun tók í framhaldi málsins ákvörðun um að fresta útgáfu starfsleyfisins á meðan að farið yrði yfir skipulagsmál Rifóss hf. Upplýsinga var aflað hjá Norðurþingi og kom þar fram að svæðið hefði ekki verið deiliskipulagt. Umhverfisstofnun óskaði einnig eftir að sveitarfélagið tilgreindi hvort gefið hefði verið út byggingarleyfi. Ekki tókst þó að finna slíka afgreiðslu og voru þau svör gefin að hluti af skýringunni á þessari stöðu kunni að vera mögulegur misbrestur á formlegri framkvæmd fyrir sameiningu sveitarfélaga á svæðinu. Hins vegar var staðfest að starfsemin hafi árum saman verið til staðar í sátt við viðkomandi sveitarfélag. Þá sé gert ráð fyrir fiskeldi á viðkomandi svæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Í ljósi þess að um er að ræða útgáfu leyfis fyrir rekstur sem hefur gengið í áratugi á þessum stað og að fulltrúi sveitarfélagsins hefur staðfest heimild rekstursins til starfsemi, ekki hafa verið gerðar athugasemdir við staðsetninguna, auk þess sem aðalskipulag rennir stoðum undir það, er það niðurstaða Umhverfisstofnunar að samþykkja tilgreinda yfirlýsingu sveitarfélagsins í stað afrits af gildandi deiliskipulagi við útgáfu þessa starfsleyfis.

Rifós hf. óskaði eftir því að Umhverfisstofnun endurskoðaði nýtt ákvæði um bann við notkun kopar við að lita eldisnætur. Umhverfisstofnun ákvað að bannið næði aðeins til eigin litunar sem fram hefur farið á bakkanum og fær fyrirtækið frest til að stöðva hana. Til mótvægis þarf að fylgjast betur með kopar í umhverfinu. Þrátt fyrir að ákvæðið hafi verið endurskoðað er ljóst að draga mun verulega úr menguninni.

Umhverfisstofnun barst einnig við lokafrágang starfsleyfisins ósk Rifóss hf. um að framleiðsluheimild yrði breytt frá þeirri sem sótt var um. Í umsókninni kom fram að óskað væri eftir heimild til að framleiða árlega allt að 1000 tonn af eldisfiski, þar af allt að 400 tonn af bleikju og allt að 600 tonn af laxi á ári. Ný tillaga rekstraraðila var að heimilt yrði að framleiða árlega samanlagt allt að 1000 tonn af laxi og bleikju, þar af allt að 600 tonn af laxi. Umhverfisstofnun ákvað að spyrjast fyrir um það hjá Skipulagsstofnun hvort að þetta samræmdist afgreiðslu stofnunarinnar um matsskyldu í eldi Rifóss hf. en rök rekstraraðila fyrir því að svo gæti verið voru meðal annars að bleikja er ekki framandi tegund í íslensku umhverfi. Því gæti fyrri ákvörðun átt við þó að hlutur bleikju í heildareldinu yrði aukinn.

Skipulagsstofnun svaraði því til að mengunarálag yrði áþekkt því sem fjallað hefði verið um í fyrri ákvörðun og að meginmálið væri að ekki yrði farið yfir 1000 tonna framleiðslu á ári. Að fengnu þessu áliti samþykkti Umhverfisstofnun breytinguna.

Loks gerði Umhverfisstofnun nokkrar breytingar frá auglýstri tillögu að eigin frumkvæði en þar var um að ræða endurbætt skýringarákvæði, samræmingu við önnur leyfi og aðlögun að breyttum lögum og reglum. Nánari grein er gerð fyrir þessum breytingum í skjali sem fylgir fréttinni.

Nýja starfsleyfið öðlaðist þegar gildi og gildir til 31. desember 2027.

Athugasemdir vegna Rifóss hf

Útgefið starfsleyfi