Stök frétt

Höfundur myndar: Linda Guðmundsdóttir

Miklar framkvæmdir hafa verið í friðlandinu og nærliggjandi svæðum síðan landvörður tók til starfa um miðjan júní. Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar mættu á sama tíma og landvörður og var hafist handa við lagfæringu og viðhald göngustígs við fossinn Dynjanda. Hann lítur nú glimrandi vel út.

Sjálfboðaliðarnir eru núna að vinna í Surtarbrandsgili en þar stendur mikið til þessa dagana. Setja á upp upplýsingaskilti og sýningakassa bæði inni í gilinu og utan við það, ásamt því sem unnið er í stígagerð inni í gilinu sjálfu.

Á meðan að sjálfboðaliðar hafa unnið hörðum höndum við náttúruvættin tvö, hefur landvörður eytt síðustu vikum í viðhald og upplýsingagjöf í friðlandinu sjálfu. Mikið er um gamla slóða og utanvegaakstursför á svæðinu og tími farið í að lagfæra og skipta út staurum og steinum sem loka slíkum slóðum. Skilti og áningaborð eru pússuð og máluð og eru tilbúin til notkunar, utanvegaakstursför hafa verið rökuð burt og loksins er byrjað að rigna eftir ótrúlega blíðu og yfirgengilega þurrka síðustu vikna. Gróðurinn ætti því að taka kipp og vonandi bláberin með. Líklegt er að mýið spretti upp að sama skapi.  

Á Vatnsdalsvatni er fjölskrúðugt fuglalíf og í síðustu ferð sinni meðfram vatninu kom landvörður auga á kríur, himbrima, lómapar, straumendur, lóur, spóa, álftir og meira að segja toppöndsstegg.

Ferðamannafarfuglarnir eru líka mættir og fólk farið að tjalda allt frá litlum einstaklingstjöldum upp í glæsileg þriggja herbergja fellihýsi á tjaldstæðunum við Hótel Flókalund. Sumarið er því svo sannarlega komið á sunnanverðum Vestfjörðum.