Stök frétt

Höfundur myndar: Hákon Ásgeirsson

Látrabjarg er vinnsæll viðkomustaður ferðamanna og hefur fjöldi þeirra vaxið ár frá ári. Samkvæmt umferðatalningu Vegagerðarinnar síðastliðið sumar, fóru að meðaltali 141 bíll á dag um veg 612 á Látrabjargi, á tímabilinu 1. júní til 30. september. Það gerir um 12.700 bíla á fjórum mánuðum. Með fjölgun ferðamanna hefur álag á náttúru svæðisins aukist og sumstaðar látið á sjá. Umhverfisstofnun hefur gert samkomulag við landeigendur við Látrabjarg um að sinna landvörslu á svæðinu yfir sumartímann. Í kjölfarið var hafist handa við uppbyggingu á göngustígum á bjarginu þar sem álagið er mest.

Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunnar voru fengnir í verkefnið og lögð var áhersla á að valda sem minnstu raski, að nota efnivið af svæðinu og láta göngustíginn falla vel að landslaginu. Það reyndi mikið á krafta sjálfboðaliðanna að bera fjölda steina yfir 100kg að þyngd um 250 metra vegalengd til að hanna steinþrep. En árangur erfiðisins og vönduð vinnubrögð skiluðu sér eins og myndirnar sýna. Sjálfboðaliðar á vegum Umhverfisstofnunnar starfa á sumrin um land allt og vinna þar þarft og ómetanlegt starf.

 

Höfundur: Hákon Ásgeirsson.
Gönguslóði fyrir stígagerð sjálfboðaliða. 

Höfundur: Hákon Ásgeirsson.
Göngustígur eftir vinnu sjálfboðaliða.