Stök frétt

Höfundur myndar: Ólafur A. Jónsson

Nýverið voru samþykkt á Alþingi lög nr. 20/2012 um breytingu á lögum nr. 44/1999 um náttúruvernd með síðari breytingum. Með lögunum var samþykkt sú breyting að hljótist alvarleg spjöll á náttúru Íslands vegna utanvegaaksturs skal brotamaður sæta sektum, að lágmarki 350.000 kr., eða fangelsi allt að fjórum árum. Séu spjöllin á náttúru landsins alvarleg eða að akstur utan vega telst sérlega vítaverður er heimilt að gera ökutækið upptækt með dómi, nema ökutækið sé eign annars manns. Framangreind breyting á lögum um náttúruvernd öðlaðist gildi þann 1. maí sl.

Teymi um náttúruauðlindir sem er starfandi hjá Umhverfisstofnun hefur lagt mat á áhrif breytinganna. Að mati teymisins eru breytingarnar til þess fallnar að draga úr akstri utan vega en bendir þó á að forsendur þess, að lagabreytingarnar hafi tilætluð áhrif, eru að fram fari víðtæk kynning á efni þeirra og að vel sé staðið að eftirliti og eftirfylgni. Teymið hefur sett upp dæmi um viðmið vegna alvarlegra spjalla á náttúru landsins og hvað gæti talist sem sérlega vítaverður utanvegaakstur.

Dæmi um alvarleg spjöll gætu t.d. verið að landskaði sé óafturkræfur eða að gróðurþekja skerðist þannig að varanlegt rof hlýst af.

Dæmi um viðmið fyrir vítaverðan utanvegaakstur gæti t.d. verið akstur innan friðlýstra svæða, að markmið akstursins sé að valda skaða á landinu, endurtekin brot með utanvegaakstri, akstur utan vega í atvinnuskyni og þegar akstur utan vega er fordæmisgefandi.