Stök frétt

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar séð úr lofti.

Vegagerðin og sveitarfélög kortleggja nú í þremur áföngum hávaða á stórum vegum og þéttbýlissvæðum á Íslandi. Fyrsta áfanga er lokið. Þar voru kortlagðir stórir vegir, eða hlutar þeirra, sem hafa allir umferð meira en 6 milljón ökutækja á ári og eru staðsettir innan höfuðborgarsvæðisins. Vegnúmer þeirra eru 1, 40, 41, 49, 413 og 418. Hávaðamælingar og útreikningar hafa farið fram áður á öllum þessum vegum. Sums staðar hafa sveitarfélög gripið til ráðstafana, þar sem hávaði hefur reynst vera yfir settum mörkum, t.d. með uppsetningu hljóðmana og styrkir veittir til glerskipta.

Miðað er við að hávaði frá vegum, við húsvegg fyrir íbúðarhúsnæði á íbúðar-, verslunar-, þjónustu- og miðsvæðum, fari ekki yfir 55-65 dB LAeq24 (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring).

Útreikningar sýna að hávaði fer yfir 55 dB Lden við húsveggi um 14.000 íbúða á svæðinu eða hjá allt að 24.000 íbúum. Þessar niðurstöður gefa vísbendingu um hvar hávaði kunni að vera yfir mörkum. Það ber þó að líta til þess að hávaðakortin eru reiknuð m.v. 4 metra hæð en reglugerð um hávaða kveður á um að viðmiðunarhæð utan við húsvegg sé 2 metra hæð og viðmiðunarmörk innanhúss eru við lokaða glugga. Þar sem mælingarnar eru í 4 metra hæð kunna þær að vera misvísandi fyrir lágreista byggð. Einnig hefur sums staðar verði gripið til ráðstafana til þess að draga úr hávaða sem ekki er tekið tillit til í þessum útreikningum.

Nánari upplýsingum um hvort hávaði sé yfir mörkum við byggingar verður safnað saman í næsta áfanga sem fer fram síðar á þessu ári. Þá liggja fyrir nákvæmari upplýsingar um við hvaða byggingar hávaði er yfir mörkum. Í þriðja áfanga, á árinu 2013, ber sveitarfélögum skylda til þess að gefa út aðgerðaráætlanir fyrir þau svæði þar sem hávaði er áætlaður yfir viðmiðunarmörkum.

 

Hávaðakortin eru aðgengileg hér að neðan.

Upplýsingar um skyldur og mælingar skv. reglugerðum og tilskipun

Hávaðakort fyrir stóra vegi með umferð meiri en 6 milljón ökutækja á ári hafa verið unnin og Umhverfisstofnun safnaði saman og sendi niðurstöður útreikninga til Eftirlitsstofnun EFTA skv. ákvæðum tilskipunar 2002/49/EB um mat og stjórn á hávaða í umhverfinu. Ísland innleiddi tilskipunina árið 2005 og eru hávaðakortin fyrir þessa stóru vegi, fyrsta stig af þremur í kortlagningu hávaða á stórum vegum og á þéttbýlissvæðum á Íslandi.

Við kortlagningu hávaða á vegum með umferð meiri en 6 milljón ökutæki á ári var hávaði reiknaður m.v. 4 metra hæð og gefinn upp í Lden (meðaltalsgildi hávaða yfir einn sólarhring) og Ln (gildi hávaða að nóttu til) gildunum. Niðurstöður útreikninga eru settar fram á hávaðakortum, þar sem mismunandi litir standa fyrir mismunandi dB-gildisbil.

Hávaðakort fyrir stóra vegi með umferð 3-6 milljón ökutækja á ári og þéttbýlissvæði með fleiri en 100.000 íbúa verða tilbúin undir lok þessa árs (2012) og mun þá öðru stigi kortlagningarinnar vera lokið. Aðgerðaáætlanir, þriðja stigið, verða gefnar út árið 2013 fyrir þau svæði þar sem hávaði mælist yfir viðmiðunarmörkum. skv. reglugerð um hávaða nr. 724 frá árinu 2008. Í kjölfarið eiga sveitarfélög, í samstarfi við veghaldara, að vinna að aðgerðaráætlunum sem miða að því að draga úr áhrifum frá hávaða á vegum. Aðgerðaráætlanir eiga að vera tilbúnar um mitt ár 2013.

Hávaðakort

Reykjavík

Kópavogur

Garðabær

Hafnarfjörður

Mosfellsbær