Stök frétt

Umhverfisstofnun náði á árinu 2011 að flokka 98% af öllum úrgangi sem fellur til hjá stofnuninni að Suðurlandsbraut 24 í Reykjavík. Aðeins 2% af úrgangi fór óflokkaður í urðun en 98% voru því endurnýtt sem hráefni. Úrgangsmálin voru tekin föstum tökum samhliða innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi (ISO 14001). Árið 2009 fóru um 1,4 tonn af óflokkuðum úrgangi í urðun frá stofnuninni en á árinu 2010 var ráðist í umfangsmeiri flokkun sem skilaði því að aðeins rúm 500 kg fóru í urðun. Á árinu 2011 tókst að ná magninu niður í 181 kg af óflokkuðum úrgangi á ársgrundvelli af rúmum 6 tonnum sem falla til af úrgangi. Því fóru aðeins þrjú kíló í urðun frá hverjum starfsmanni sem er stórgóður árangur. Með bættri flokkun má bjarga hráefnum frá þeirri endastöð sem urðun er og koma verðmætum efnum aftur í umferð. Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu hefur hlutfall óflokkaðs úrgangs lækkað úr 26% í 2% á aðeins tveimur árum. Til samanburðar má sjá tölur frá systurstofnun Umhverfisstofnunar í Noregi sem er með hlutfallslega meiri úrgang per ársverk og hlutfallslega meira óflokkað.

Tafla sem sýnir sundurliðun á flokkun úrgangs í flokkaðan og óflokkaðan úrgang milli ára hjá Umhverfisstofnun.

Ljóst er að ná má góðum árangri á skömmum tíma með því að hefja markvissa flokkun á úrgangi. Í því sambandi má nefna að óflokkaður úrgangur sem safnað var í sorphirðu sveitarfélaganna árið 2010 og fór í urðun eða brennslu var 55.165 tonn. Óhætt er að fullyrða að með samhentu átaki megi draga verulega úr því magni úrgangs sem fer í urðun og auka verulega endurnýtingu og endurvinnslu. Umhverfisstofnun lærði ýmislegt á árinu 2010 sem var fyrsta árið þar sem flokkunin var tekin föstum tökum. Meðal annars var ákveðið að fækka þeim tunnum sem eru fyrir óflokkaðan úrgang og minnka rúmmál þeirra þannig að það komist hreinlega minn í þær. Einnig voru allar tunnur fjarlægðar af skrifstofum starfsmanna. Með því er auðvelda leiðin útilokuð og allir þurfa að koma úrgangnum sínum í viðeigandi tunnu. Umhverfisstofnun flokkar allan úrgang, s.s. plast, pappír, málma, lífrænan úrgang, raftæki og svo framvegis. Mest fellur til af pappír, plasti og lífrænum úrgangi eins og sjá má á meðfylgjandi súluriti.

Súlurit sem sýnir breytingu á magni úrgangs milli flokka árið 2010 og 2011.

Umhverfisstofnun mun næst leggja áherslu á að draga úr þeim úrgangi sem fellur til, en um leið viðhalda er þeim góða árangri sem náðst hefur í flokkun. Mikilvægt er til framtíðar að draga úr úrgangsmyndun og með því draga úr álagi á umhverfið og auka nýtingu á gæðum. Stofnunin hvetur alla til þess að flokka úrgang sem mest þeir mega en skorar sérstaklega á aðrar stofnanir og fyrirtæki að taka þátt. Líta má á það sem fyrsta skrefið í því að byggja upp grænt hagkerfi. Umhverfisstofnun er tilbúin til þess að miðla af reynslu sinni í því markmiði.

Tengt efni