Stök frétt

Ný lög um umhverfisábyrgð voru samþykkt á Alþingi í gær. Með lögunum er greiðsluregla umhverfisréttarins, eða mengunarbótareglan (Polluter pays principle), innleidd í íslenskan rétt. Þetta er sú meginregla að sá sem valdi mengun bæti umhverfistjón sem af henni hlýst og beri kostnað af því.

Með lögunum er í fyrsta skipti settar hér á landi reglur um skyldur rekstraraðila sem ábyrgð bera á umhverfistjóni sem hlýst af starfsemi þeirra eða gæti orðið. Er markmiðið að þeir sem standa að atvinnurekstri komi í veg fyrir slíkt tjón eða bæti á eigin kostnað úr úr því tjóni sem atvinnustarfsemin veldur.

Lögin gilda um umhverfistjón sem hlýst af ýmissi leyfisskyldri atvinnustarfsemi sem og yfirvofandi hættu á umhverfistjóni af völdum slíkrar starfsemi. Gildir ábyrgð slíkra rekstraraðila óháð því hvort um gáleysi eða ásetning er að ræða.

Að auki gilda lögin um umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum og yfirvofandi hættu á slíku tjóni sem rekja má til annarrar atvinnustarfsemi en þeirrar sem sem er leyfisskyld, hvort sem það hlýst af ásetningi eða gáleysi.

Í lögunum eru ákvæði um rannsóknir og úrbætur vegna umhverfistjóns. Þá eru ákvæði um rannsóknir og ráðstafanir til að koma í veg fyrir hættu á umhverfistjóni sem hlýst af atvinnustarfsemi og kostnað sem því fylgir. Þau gilda þó ekki um umhverfistjón eða yfirvofandi hættu á umhverfistjóni þegar liðin eru meira en 30 ár frá því að atburður sem orsakaði tjónið eða hættuna á tjóni varð.

Undir lögin fellur umhverfistjón á vernduðum tegundum og náttúruverndarsvæðum, vatni og landi.

Umhverfisstofnun fer með stjórnsýslu og eftirlit laganna.

Lögin fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópusambandsins um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess, sem íslenska ríkinu ber skylda að innleiða vegna EES-samningsins.

Frétt á umhverfisráðuneyti.is