Stök frétt

UST hóparnir tveir (frá vinstri til hægri: Lee, Nora, Kate, Seth, Mikhail, Niall, Kenneth, Christof, Alistair og René).

 Umhverfisstofnun og Háskólinn á Hólum héldu í sameiningu námskeið fyrirSjálfboðaliða í Náttúruvernd á Hólum 6. - 16. júní. Þar var þeim kennt að gera við og leggja göngustíga í skógarumhverfi, en dagana áður unnu þeir að viðhaldi göngustíga í Esjuhlíðum, þar sem þeir lærðu að vinna að stígagerð með grjóti.

Þetta námskeið er liður í þjálfun sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar, sem undirbýr þá svo fyrir vinnu við viðhald á göngustígum í friðlöndum og þjóðgörðum landsins. Umhverfisstofnun hefur lengi haldið utan um þessa starfsemi en samstarfið við Hólaskóla hefur aukist, með því að halda hluta námskeiðs á Hólum. Þannig er byggt á yfir 10 ára samstarfi Hóla og Umhverfisstofnunar við námskeið í göngustígagerð, sem nemendur á 1. ári á Ferðamáladeild sækja og er hluti af þeirra námi, m.a. til að fá landvarðaréttindi sem Umhverfisstofnun veitir.

Námskeiðið er haldið í góðu samstarfi Hólaskóla við sjálfboðaliða í Náttúruvernd sem René Biasone, sérfræðingur á sviði náttúruauðlinda hjá Umhverfisstofnun heldur utan um. Umsjónarmaður námskeiðshlutans á Hólum var Kjartan Bollason, lektor við Ferðamáladeild Hólaskóla. Langtímasjálboðaliðar (Trail Teams) á vegum Umhverfistofnunar leiddu sín teymi sem nýttu tímann vel og unnu m.a. að viðgerð við skógarþrep, felldu tré í þrepin, dreifðu kurli á stígana til að afmarka þá betur og draga úr rofi.

Augljóst var af verkefnunum að rof vegna veðrunar og aukins fjölda ferðamanna víða á Íslandi fer vaxandi og því er viðhald göngustíga eitt af þeim mikilvægu verkefnum sem tryggja innviði í ferðaþjónustu og styðja við þá viðleitni að hérlendis sé stunduð sjálfbær ferðaþjónusta. Hóparnir fjórir sem útskrifuðust síðustu helgi eru strax farnir að vinna á mörgum friðlýstum svæðum eins og í Ásbyrgi, Hrauni í Öxnadal, Mývatni, Vatnsfirði og Hornströndum og munu einnig vinna í Kverkfjöllum, Öskju, Nýjadal, Laka, Eldgjá, Skaftafelli, Fjallabaki, Snæfellssjökli, Eldborg og Grábrók, svo fátt eitt sé nefnt.

Mynd af sjálfboðaliðahópum Umhverfisstofnunar sem tóku þátt á námskeiði í samstarfi við Háskólann á Hólum árið 2012. Frá vinstri til hægri: Lee (liðsstjóri), Nora, Kate, Seth, Mikhail, Niall (liðsstjóri), Kenneth, Christof, Alistair og Kjartan (kennari). Frá vinstri til hægri: Reg (liðsstjóri), Benjamin, Roger (liðsstjóri), Romain, Donnacha, Adela, Daniel, Marion, Niki, Jean-Baptiste, Ruta, and René (umsjónarmaður Umhverfisstofnunar). Ný ræsi úr grjóti eru gerð á göngustig við Esju.