Stök frétt

Hópmynd frá heimsókn í Þjóðgarðinn Snæfellsjokul vegna kynningar á starfsemi og hlutverki hans og áhrif hans á samfélagið í kring.

Dagana 14. og 15. maí heimsóttu fulltrúar nefndar um framtíðarskipulag Látrabjargs og nágrennis Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Tilgangur ferðarinnar vara að kynna nefndarmönnum starfsemi og hlutverk þjóðgarðsins og áhrif hans á samfélagið í kring. Í nefndinni sem skipuð er af Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra Vesturbyggðar sitja eftirtaldir:

  • Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri.
  • Anna Kristín Ólafsdóttir, Umhverfisstofnun.
  • Hákon Ásgeirsson, Umhverfisstofnun.
  • Jón Þórðarson, ferðamálasamtök Vestur Barð.
  • Keran Stuerland Ólason, landeigandi í Breiðavík.
  • Gísli Már Gíslason, landeigandi á Látrum.
  • Sólveig Erlendsdóttir, landeigandi á Látrum.
  • Sigðurður Valtýsson, landeigandi á Látrum.

Ferðin hófst í Langholti í Staðarsveit þar sem hópurinn hittist og snæddi hádegisverð. Í Langholti er rekið gistiheimili undir stjórn Þorkels Símnasonar. Hann fræddi nefndarmenn um hvaða áhrif það hefur að hans mati að reka ferðaþjónustufyrirtæki í nágrenni þjóðgarðs. Hann sagði m.a. að margir erlendir ferðamenn komi gagngert til landsins til að heimsækja þjóðgarða og og njóti fyrirtæki hans góðs af því.

Að loknum hádegisverði var ferðinni heitið á Gestastofu Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls á Hellnum. Þar tók Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður á móti okkur, sagði frá starfsemi og hlutverki þjóðgarðsins og var með leiðsögn um sýningu gestastofunnar. Á sýningunni er farið í gegnum jarðsöguna á svæðinu ásamt náttúru og dýralífi. Búseta og lífshættir fyrri tíma skipa stóran sess á sýningunni, en verbúðir á Snæfellsnesi voru með þeim fjölmennustu á landinu á 17. og 18. öld þó ekki sjáist mikil ummerki um það í dag. Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður árið 2001og hefur fjöldi gesta aukist frá ári til árs. Í þjóðgarðinum eru tveir heilsársstarfsmenn, þjóðgarðsvörður og sérfræðingur. Yfir sumarmánuðina eru átta landverðir að störfum. Aukin ferðamannastraumur um þjóðgarðinn gerir það að verkum að landvörðum hefur verið fjölgað, auknu fé veitt í uppbyggingu á aðstöðu fyrir ferðamenn og í framleiðslu upplýsinga- og fræðsluefnis um svæðið, aukið viðhald er á göngustígum og vegasamgöngur hafa verið bættar til muna. Guðbjörg sagði okkur frá samstarfsverkefnum þjóðgarðsins við aðrar stofnanir og fyrirtæki á svæðinu eins og Náttúrustofu Vestfjarða, Háskólasetur Snæfellsnes, sjávarrannsóknasetrið Vör, ferðamálasamtök o.fl.. Samstarfið hefur styrkt tengsl þjóðgarðsins við samfélagið og aukið rannsóknir og vöktun á náttúru og dýralífi á svæðinu.

Að lokinni heimsókn á Gestastofu þjóðgarðsins bauð Guðbjörg hópnum í hellaferð í Vatnshelli. Hellirinn var gerður aðgengilegu ferðamönnum árið 2010 með aðstoð heimamanna. Árni Stefánsson augnlæknir og hellaáhugamaður átti hugmyndina og fékk til liðs við sig Hjörleif Stefánsson arkitekt til að hanna mannvirkið í kringum hellinn. Allir sem komu að verkefninu unnu í sjálfboðavinnu en Umhverfisstofnun fjármagnaði efniskostnað. Ferðir í hellinn eru einungis í boði með leiðsögn og var landvarðastöðum fjölgað um þrjárí þjóðgarðinum árið 2011 til að sinna því starfi. Greiddur er aðgangseyrir í hellinn sem á að standa undir launakostnaði og viðhaldsvinnu.

Á öðrum degi tók Kristinn Jónsson bæjarstjóri Snæfellsbæjar á móti okkur á bæjarskrifstofunni. Hann sagði okkur frá áhrifum þess að hafa þjóðgarð í sveitafélaginu og hvað garðurinn að hans mati gerir fyrir samfélagið. Hann telur að þjóðgarðurinn hafi almennt jákvæð áhrif á samfélagið í kring og styrki sjálfbæra ferðaþjónustu þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir á svæðið en á sama tíma er það verndað svo að komandi kynslóðir fái að njóta þess á sama hátt og við gerum í dag án þess að gengið sé á gæði landsins. Kristinn sagði samstarf við starfsfólk Umhverfisstofnunar gott, en hann vill að heimamenn hafi kost á að koma meira að starfsemi þjóðgarðsins.

Eftir fund með bæjarstjóra voru helstu náttúruperlur þjóðgarðsins skoðaðar með leiðsögn fyrrverandi landvarðar á svæðinu. Sérstaklega var skoðað hvernig aðgengi ferðamanna er háttað í garðinum, hvernig göngustígar er uppbyggðir, salernisaðastaða, aðgengi fatlaðra og hvernig stýringu ferðamanna er háttað til að vernda svæðið fyrir ágangi.

Að lokum var snæddur hádegisverður í Fjöruhúsinu á Hellnum sem er í friðlandi sem liggur á milli Arnastapa og Hellna. Friðlandið er í umsjón þjóðgarðsvarðar ásamt friðlandinu á Búðum.

Nefndarmenn voru sammála um að ferðin hafi heppnast vel, að afar gagnlegt hafi verið að fá innsýn í starfsemi og hlutverk þjóðgarðsins og einnig að heyra viðhorf heimamanna á tilvist hans.