Stök frétt

Hvað verður um ruslið sem þú hendir frá þér á götum úti og á víðavangi? Hvaða áhrif hefur mengun á lífríkið í hafinu? Umhverfisstofnun býður upp á sýningu um áhrif mannsins á hafið og lífríki þess á Hátíð hafsins, sem haldin er dagana 2. – 3. júní.

Á sýningu Umhverfisstofnunar sem sett er upp í tjaldi á Grandagarði er meðal annars fjallað um áhrif rusls á lífríki í hafinu. Rusl sem við mennirnir hendum frá okkur á víðavangi eða götum úti getur haft skaðleg og alvarleg áhrif á lífríkið. Sjófuglar og sjávardýr taka plast oft í misgripum fyrir fæðu. Dýr geta einnig fest sig í ýmsum hlutum sem annað hvort er hent í sjóinn eða berast til hafs, eins og netum og plasthringjum af dósakippum. Auk þess er rusl í fjörum, sem og annars staðar í umhverfinu, til mikilla lýta og rýrir útivistargildi svæða. Því er mikilvægt að við hendum ekki frá okkur rusli nema í þar til gerð ílát.

Þegar bráðamengun á sér stað er mikilvægt að grípa strax til aðgerða og tryggja að viðbrögð séu rétt hverju sinni. Á sýningu Umhverfisstofnunar er meðal annars sýndur mengunarvarnabúnaður sem nýttur er þegar olíuóhapp á sér stað og einnig er sýnt hvernig ísogsefni hreinsar olíu úr sjó/vatni.

Kjölfestuvatn gegnir mikilvægu hlutverki við stjórnun og öryggi skipa. Með aukinni skipaumferð hefur hættan á því að sjávarlífverur flytjist á milli hafsvæða með kjölfestuvatni aukist til muna. Flutningur lífvera með kjölfestuvatni og á skipsskrokki er nú talin vera ein mesta ógnin við lífríki hafsins og er talið að a.m.k. 7.000 tegundir lífvera flytjist á milli staða með þessum hætti á hverjum degi. Mögulegt er tegundir nái fótfestu í nýjum heimkynnum og hafi þar skaðleg áhrif á lífríki. Skip eins og allt annað hafa sinn líftíma. Þau verða óhagkvæm í rekstri, uppfylla ekki umhverfis- og/eða öryggiskröfur, eða verða bara hreinlega úrelt. Auk fræðsluefnis um kjölfestuvatn verður á sýningu Umhverfisstofnunar fræðsluefni um niðurrif skipa og þær aðstæður sem verkamenn sem vinna við niðurrif skipa þurfa að starfa og búa við í sumum löndum.

Auk þess að kynna sér fræðsluefni um málefni hafsins geta gestir spreytt sig á getraun um niðurbrot ýmissa hluta sem eru hluti af daglegu lífi vel flestra Íslendinga.