Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Arnarlax ehf. sem gildir til framleiðslu á allt að 3.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Arnarfirði. Eldið skal vera staðsett innan svæða sem tilgreind eru í viðaukum starfsleyfisins.

Stofnunin auglýsti tillögu að starfsleyfi á tímabilinu 9. desember 2011 til 3. febrúar 2012. Tillagan lá frammi á skrifstofu Vesturbyggðar á sama tíma. Kynningarfundur var haldinn 24. janúar s.l. í Baldurshaga á Bíldudal. Auk þess að fjalla um tillögu Umhverfisstofnunar um eldi Arnarlax ehf., var fundurinn einnig um kvíaeldi Fjarðalax ehf. og starfsleyfistillögu Umhverfisstofnunar fyrir það. Mjög góð aðsókn var á þennan fund og fjörugar umræður.

Á auglýsingatíma komu fram sex athugasemdir. Þar á meðal voru athugasemdir um strokulax, erfðablöndun, varnir gegn lúsasmiti og erfðablöndun. Þótt þessi mál séu að sönnu umhverfismál falla þau ekki að því hlutverki sem starfsleyfum er ætlað sem eru gefin út skv. reglugerð nr. 785/1999, um  um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun.

Eftir að Umhverfisstofnun hafði fjallað um athugasemdirnar og gefið út starfsleyfi kom í ljós að stofnuninni hafði láðst að taka til skoðunar athugasemdir Hafrannsóknarsóknarstofnunar um skörun eldissviða við togslóðir vegna árlegra rækjurannsókna. Arnarlax óskaði í framhaldinu eftir því að málið yrði tekið upp að nýju sem Umhverfisstofnun samþykkti með tilvísun í heimildir 24. greinar stjórnsýslulaga.

Við endurupptöku málsins var leitað frekara álits nokkurra aðila á starfsleyfinu svo breyttu þar sem gert var ráð fyrir að staðsetningar á tveimur eldissvæðum myndu breytast. Í því ferli komu ekki fram sjónarmið sem breyttu þeim áformum og hefur Umhverfisstofnun því gefið út starfsleyfi fyrir Arnarlax að teknu tilliti til framkominna ábendinga. 

Nýja starfsleyfið öðlaðist þegar gildi og gildir til 29. febrúar 2028.

Tengt efni